„Auðvitað er alltaf glápt á mann“

Þegar Jón Hreggviðsson Reinarbónda bar að garði í Húsafelli kynnti …
Þegar Jón Hreggviðsson Reinarbónda bar að garði í Húsafelli kynnti prestur hann fyrir dóttur sinni og móður sem voru „vanar að hræra í blóði“. Úlfhildur Arna Unnarsdóttir kraftlyftingakona stendur þeim fraukum ekki fetinu aftar. Ljósmynd/Aðsend

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir lyftingakona gerði góða för og rúmlega það á heimsmeistaramót undir 17 ára í ólympískum lyftingum í Jeddah í Sádi-Arabíu um helgina þar sem hún keppti í 71 kg flokki og fékk allar lyftur gildar aukinheldur sem hún setti nýtt Íslandsmet í snörun, 81 kg, og bætti þar með met sem hún átti reyndar líka auk þess að vera aðeins einu kílógrammi frá núverandi Íslandsmeti í jafnhendingu þar sem hún lyfti 96 kg.

Úlfhildur hefur rætt við mbl.is áður og þær mæðgur en móðir hennar er Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður frá Akureyri, sem varð Evrópumeistari í -59 kg flokki á Evrópumeistaramóti í ólympískum lyftingum í fyrra og geri aðrir kvenkyns héraðsdómslögmenn betur. Úlfurinn sagði mbl.is af för sinni til Sádi-Arabíu.

„Þetta var býsna langt ferðalag, 15 tímar í allt, en löndin skiptast á að halda þetta og þeir eiga svo sem nógan pening í Sádi-Arabíu og geta haldið flott mót,“ segir Úlfhildur, nýlent í Svíþjóð eftir síðasta legg ferðarinnar til baka, en fjölskyldan er búsett þar.

„Ég náði upp í lágmarksþyngd til að komast inn á þetta mót, ég náði mínum besta árangri á Norðurlandamóti sem ég keppti í á Íslandi vegna Covid,“ segir Úlfhildur í samtali við mbl.is í kvöld. „Um þrjá mismunandi styrki er að ræða, A, B og C. Ég náði mér í A styrk sem er það hæsta, þá borgar Lyftingasambandið allt fyrir þig, en hinir styrkirnir eru svo lægri,“ útskýrir Úlfhildur sem er fædd í júní 2005 og því yngri en allar bifreiðar sem sá er hér skrifar hefur átt um dagana.

Hvernig skyldu þá lyftingamót hinum megin á hnettinum fara fram?

„Dagurinn byrjar alltaf á vigtun, svo borðum við, þar á eftir er upphitun sem gekk svo sem ágætlega, þó ekki eins vel og ég hafði vonað,“ játar Úlfhildur. „Ég byrjaði á að missa 72 kíló í snörun sem er þremur kílóum undir því sem mig langaði að taka. Ég þyngdi þá aðeins og negldi það, maður fær svo mikið adrenalínspark þegar maður fer upp á þennan pall að manni finnast allir vegir færir, mér fannst það bara skítlétt,“ segir valkyrjan og hlær við.

Þarna fer allt upp. Úlfhildur segir í viðtalinu af því …
Þarna fer allt upp. Úlfhildur segir í viðtalinu af því hvernig hún býr sig af kostgæfni undir kraftlyftingamót þrátt fyrir að æfa ein í Svíþjóð. Hún lætur það ekki stöðva sig. Ljósmynd/Aðsend

„Þá ákváðum við bara að þyngja í 77,“ heldur hún áfram en „við“ í því samhengi eru hún og Sigurður Darri Rafnsson þjálfari, Siggi í daglegu tali. „Við vorum þrjár stelpur sem vorum að keppa þarna og vorum í þyngdum mjög nálægt hver annarri. Stelpan sem var á undan mér tók 78 kíló svo ég hefði getað farið í 79 og unnið hana, en ákvað að taka smá áhættu og fara í 81 kg og negldi það,“ segir afrekskonan frá, „og það var bæting á mínu eigin Íslandsmeti sem var 80 kíló,“ segir hún enn fremur og lætur þetta afrek hljóma eins og að smyrja sér brauðsneið.

Kallar það ekki helvíti

Næsta keppnisgrein var jafnhending, eða svokallað clean and jerk á engilsaxneskunni, þar sem Úlfhildur ákvað að hefja leik í 88 kílóum. „Ég hef aldrei byrjað hærra en í 85 en ákvað að byrja þarna í 88. Ég fer upp og negli það bara létt og ákveð svo að fara upp í 93 kíló og negli það líka,“ segir Úlfhildur og lætur sér fátt um finnast. Því næst reif hún upp 96 kíló og var þar með einu kílói frá Íslandsmetinu í greininni.

Hvað með undirbúning fyrir heimsmeistaramót, er hann ekki helvíti á jörð?

Úlfhildur hlær dátt áður en hún svarar. „Nei, ég myndi ekki kalla þetta helvíti, mér finnst þetta svo rosalega gaman, en þetta er rosalegt álag. Ég er í skóla og ég er að vinna og mig langar að hitta vini mína þannig að þetta er mjög mikið,“ segir Úlfhildur sem er á fyrsta ári í sænskum framhaldsskóla.

„Þetta fer reyndar mjög vel saman, ég er með mjög fínt prógramm sem pabbi útbýr fyrir mig. Hann sendir mér það svo bara í símann minn og ég geri æfingarnar þegar ég vil. Þetta er ekki eins og í mörgum öðrum íþróttum þar sem maður er með fastar æfingar með þjálfaranum sínum, ég get bara æft þegar mér hentar,“ segir Úlfhildur, en faðir hennar er Unnar Helgason, margreyndur þrek- og styrktarþjálfari úr Hafnarfirði sem mörgum Íslendingum er að góðu kunnur.

Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður og móðir Úlfhildar, skartar Evrópumeistaratitli í …
Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður og móðir Úlfhildar, skartar Evrópumeistaratitli í sínum þyngdarflokki eins og mbl.is greindi frá í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Hún játar þó að ljón séu í veginum, félagsleg ljón. „Ég flutti náttúrulega bara til Svíþjóðar fyrir einu ári og bý ekki nálægt neinum sem er að æfa ólympískar lyftingar svo ég er alltaf að æfa ein. Samt finnst mér það bara fínt, ég get þá verið með mína eigin tónlist og verið á mínu eigin tempói og það hentar mér bara vel. Þegar ég bjó á Íslandi var ég að æfa í hópi og það var líka bara geggjað,“ rifjar Úlfhildur upp.

Alvarlegir og einbeittir

Ekki er annað hægt en að spyrja út í stemmninguna á alþjóðlegum kraftlyftingamótum, hvernig er hún?

„Þetta var mjög sérstakt núna auðvitað vegna Covid, við vorum í mat saman og auðvitað langaði mann að fara og tala við fólk frá hinum löndunum, en allir voru með grímur og við áttum að halda fjarlægð svo við náðum nú ekki að „sósíalera“ mikið,“ segir Úlfhildur og hlær, yfirleitt sé þó mjög góð stemmning á alþjóðlegum lyftingamótum að hennar sögn.

„Samt eru allir rosalega alvarlegir og einbeittir þegar maður mætir á mót, ekkert mikið grín í gangi, auðvitað er samkeppnin rosalega mikil,“ segir þessi íslenska kraftlyftingakona en játar að hún slái þó ávallt á létta strengi á mótum: „Ég er alltaf að grínast eitthvað,“ segir hún og skellihlær.

Héraðsdómslögmaðurinn móðir Úlfhildar fylgdi henni á mótið í Sádi-Arabíu og var dóttur sinni stoð og stytta, en Helga Hlín slær þó hvergi af og er á leið á sitt annað Evrópumót eftir viku. Blaðamaður getur ekki varist því að rifja upp spurningu úr síðasta viðtali við þessar kraftmiklu norðlensku mæðgur, á Úlfhildur enn meira í bekkpressu en móðir hennar?

„Já, alla vega þegar síðast fréttist en ég hef ekki toppað síðan þá,“ segir Úlfhildur og er greinilega skemmt. „Ég á enn þá 70 kíló í bekk en ólympískar lyftingar snúast ekki um bekkpressu. Við fáum þessa spurningu samt daglega,“ segir þessi stórskemmtilega íþróttakona og hlær enn.

„Vá, þú ert svo mössuð!“

Hvað segja þá hinar stelpurnar, er ekkert verið að glápa í laumi á svona hrikalegar valkyrjur í sturtuklefanum?

Úlfhildur tekur andköf af hlátri. „Jú, auðvitað er alltaf glápt á mann, „vá, þú ert svo mössuð!“ segja stelpurnar,“ og lái þeim hver sem vill, en eins og sjá má af myndum með þessu viðtali er vöðvamassi Úlfhildar töluvert meiri en meðalkonu.

En Svíar, hvaða íþróttir stunda þeir helst?

„Ég myndi segja að bandí og hokkí væri vinsælast hérna í Gautaborg, töluvert ólíkt því sem ég er að gera,“ segir Úlfhildur og ber Svíum vel söguna, segir þá skemmtilegasta fólk og blaðamaður er reyndar sammála eftir langvarandi kynni við hina sænsku Noregsmegin.

Úlfhildur er á leið á Norðurlandamót í ólympískum lyftingum í Stavern í Noregi undir lok nóvember sem mbl.is mun að sjálfsögðu fylgjast ítarlega með en undir lokin er vart hægt að sleppa henni án þess að spyrja um fæðuvenjur og æfingar þó ekki sé nema fyrir áhugasama.

Mæðgurnar steyta hornin sáttar á leið heim frá Sádi-Arabíu fyrr …
Mæðgurnar steyta hornin sáttar á leið heim frá Sádi-Arabíu fyrr í kvöld þar sem Úlfhildur átti stórleik, hafnaði í níunda sæti og setti nýtt Íslandsmet. Úlfurinn gaf sér tíma til að segja mbl.is af förinni, nýlent heima í Svíþjóð. Ljósmynd/Aðsend

„Mataræðið er mjög fjölbreytt, ég borða mjög próteinríka fæðu og forðast unnin matvæli. Svo tek ég kreatín og stundum próteinduft. Ég æfi sex sinnum á viku, tvo tíma í senn, byrja á að rúlla mig og teygja, svo hita ég upp í 20 mínútur. Eftir það er fókusinn á æfingunni annaðhvort á snörun eða jafnhendingu og eftir það annaðhvort beygjur eða púll eins og við köllum það. Eftir það yfirleitt annaðhvort „core“ eða axlir, það er mismunandi,“ segir Úlfhildur Arna Unnarsdóttir, lyftingakona og valkyrja að lokum, 168 sentimetrar á hæð og 70 kíló á þyngd, helmössuð stúlka sem virkilega gaman verður að fylgjast með á NM í Stavern í nóvember og ekki síður hæstaréttarlögmanninum móður hennar sem ekki lætur sér allt fyrir brjósti brenna í hríðar stáls stríðri strangri herdala göngu svo vitnað sé í Sighvat skáld Þórðarson.

mbl.is