Úlfhildur setti Íslandsmet

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir stóð sig frábærlega í gær.
Úlfhildur Arna Unnarsdóttir stóð sig frábærlega í gær. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir stóð sig afar vel á heimsmeistaramóti ungmenna 17 ára og yngri í ólympískum lyftingum í Jeddah í Sádi-Arabíu í gær þar sem hún setti meðal annars Íslandsmet í snörun í sínum þyngdarflokki.

Úlfhildur Arna, sem er 16 ára gömul, keppti í 71. kílógramma flokki meyja og fékk allar sínar lyftur gildar, sem er frábær árangur útaf fyrir sig á stórmóti.

Úlfhildur setti Íslandsmet í snörun með því að lyfta 81 kg, en það reyndist þyngsta snörunin í hennar þyngdarflokki. Einnig náði hún 96 kg í jafnhendingu sem er aðeins 1 kg frá núverandi Íslandsmeti.

Með þessu jafnaði hún Íslandsmetið í samanlögðum árangri með 177 kg og tryggði sér um leið 9. sætið á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert