Eiginmaðurinn grunaður um að hafa myrt Tirop

Agnes Tirop.
Agnes Tirop. AFP

Eiginmaður keníska langhlauparans Agnesar Tirop liggur undir grun um að hafa orðið henni að bana.

Tirop fannst látin á heimili sínu í morgun þar sem hún var með stungusár á hálsi og á kvið. Í gærkvöldi tilkynnti faðir Tirop að hennar væri saknað.

„Þegar lögreglan fór inn á heimili hennar fann hún Tirop í rúminu og það var blóðpollur á gólfinu. Lögreglumenn sáu að búið var að stinga hana í hálsinn svo við teljum að hnífstungan hafi orðið henni að bana,“ sagði Tom Makori yfirlögregluþjónn í Iten, bænum sem Tirop bjó í, í samtali við BBC.

Hann bætti því að eiginmaður Tirop fyndist nú hvergi og að hann væri með stöðu grunaðs manns.

„Eiginmaður hennar leikur enn lausum hala og á grunnstigi rannsóknarinnar liggur eiginmaðurinn undir grun þar sem hann finnst ekki. Lögreglan er að reyna að hafa uppi á honum svo hann geti útskýrt hvað kom fyrir Tirop.“

Makori sagði einnig að lögreglan vonaðist til þess að myndefni úr öryggismyndavélum á heimili Tirop geti hjálpað til við rannsóknina.

Auk stungusárs á hálsi var Tirop með annað slíkt á kviðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert