Hjón sæmd gullmerki UMFÍ

Mývetningarnir og hjónin Gunnhildur Hinriksdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson ásamt …
Mývetningarnir og hjónin Gunnhildur Hinriksdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson ásamt Jóhönnu S. Kristjánsdóttur. Ljósmynd/UMFÍ

Mývetningarnir og hjónin Gunnhildur Hinriksdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson ásamt Jóhönnu S. Kristjánsdóttur voru sæmd gullmerki UMFÍ á sambandsþingi UMFí í gær. Jóhanna og Sigurbjörn Árni eru forsetar þingsins. Gunnhildur er framkvæmdastjóri Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ), eins af sambandsaðilum UMFÍ. Jóhanna er jafnframt fyrrverandi formaður HSÞ.

Rúmlega 100 fulltrúar aðildarfélaga UMFÍ eru mættir á þingið á Húsavík. Það hófst á föstudag og stendur yfir helgina. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, afhenti þeim gullmerkin og sagði um þau Gunnhildi og Sigurbjörn Árna vel að þeim komin enda kyndilberar ungmennafélagsandans.

Þetta sagði Haukur:

„Mývetningarnir og hjónin Gunnhildur Hinriksdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson eru alltaf í sama liðinu. Þau eru fyrirmyndir íþróttafólks, kærustupara og hjónakorna og hafa alltaf haft íþróttir og heilbrigt líferni að leiðarljósi sínu. Þessi samheldni sést best á því að þau eru úr sömu sveitinni, fóru saman út til Bandaríkjanna í nám í íþróttafræðum, hafa bæði kennt íþróttir og æft og keppt undir merkjum Héraðssambands Þingeyinga.

Samheldnin verður ekki betri! Þau gera alla kappleika lífsins skemmtilegri.

Það liggur við að óþarfi sé að kynna þessi sómahjón. Sigurbjörn Árni eru fyrir löngu landsþekktur fyrir lýsingar á frjálsum íþróttum og má vel segja að hvert mannsbarn viti betur hver lýsir 100 metra hlaupi á Ólympíuleikum en hverjir eru á brautinni.

Það er svo auðvitað við hæfi að þau Gunnhildur og Sigurbjörn búa á HSÞ-svæðinu og er Gunnhildur er framkvæmdastjóri sambandsins, sem er eitt það víðfeðmasta allra af sambandsaðilum UMFÍ.

Þau Gunnhildur og Sigurbjörn Árni eru kyndilberar ungmennafélagsandans. Þau endurspegla allt það góða og káta sem einkennir góða ungmennafélaga. Gullmerki á hvergi betur við en í boðungi hjá góðum ungmennafélaga. Til hamingju Sigurbjörn Árni og Gunnhildur.‟

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert