Segja Peng Shuai ekki í hættu

Peng Shuai.
Peng Shuai. AFP

Andrea Gaudenzi, formaður sambands atvinnumanna í tennis, ATP, segir það hughreystandi að samband tenniskvenna, WTA, hafi tjáð þeim að kínverska tenniskonan Peng Shuai sé örugg og sæti ekki líkamlegri ógn.

Shuai skrifaði langa færslu á kín­verska sam­fé­lags­miðil­inn Wei­bo, sem er sam­bæri­leg­ur Face­book, fyr­ir rúmri viku síðan þar sem hún sagði að Zhang Ga­oli, fyrrverandi varaforseti Kína, hafi nauðgað sér.

Færsl­unni var fljót­lega eytt ásamt fleiri ný­leg­um færsl­um henn­ar á miðlin­um. Ekkert hefur heyrst frá Shuai sjálfri eftir að færslunum var eytt en í vikunni sagði WTA hana þó ekki í hættu.

„Ekkert er mikilvægara en öryggi tennissamfélags okkar. Við höfum verið með þungar áhyggjur vegna þeirrar óvissu sem snýr að öryggi og staðsetningu WTA leikmannsins Peng Shuai.

Það var hughreystandi að fá nýlega upplýsingar frá WTA um að hún sé örugg og vitað hvar hún er niðurkomin og við munum halda áfram að fylgjast náið með framvindu mála,“ sagði Gaudenzi.

Hann bætti því við að ATP styðji fyllilega afstöðu WTA um að rannsaka þurfi að fullu og á gagnsæjan hátt ásakanir Shuai um að Gaoli hafi þvingað hana til samræðis.

BBC greinir frá því að þó WTA hafi greint frá því að Shuai sé örugg hafi sambandinu ekki tekist að hafa beint samband við hana.

mbl.is