Náði besta tíma frá upphafi

Jacob Kiplimo á verðlaunapalli í Tókýó í sumar.
Jacob Kiplimo á verðlaunapalli í Tókýó í sumar. Ljósmynd/AFP

Jacob Kiplimo frá Úganda hefur komið sér vel fyrir í sögubókunum eftir að hafa hlaupið hálft maraþon í Lissabon í Portúgal í gær. 

Kiplimo er aðeins 21 árs gamall en státar að hlaupinu loknu af besta tíma sem náðst hefur í þessari vegalengd. Maraþon er 42 kílómetrar og hálft maraþon er þar af leiðandi 21 km. 

Kibiwott Kandie frá Kenýa átti áður besta tímann frá því í Valencia í fyrra. Kiplimo hljóp í gær á 57,31 mínútum. Hann hafði mikla yfirburði en Esa Huseyidin Mohamed frá Eþíópíu varð annar á 59,39 mínútum.

Hér verður því ekki haldið fram að Kiplimo hafi stórbætt metið því Kandie hljóp á 57,32 mínútum í Valencia í fyrra. Þá varð Kiplimo einmitt annar. 

Athyglisvert verður að sjá hvaða vegalengd hinn ungi Kiplimo mun leggja höfuðáherslu á en hann vann í sumar til bronsverðlauna í 10 þúsund metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Japan. Þar hafnaði hann jafnframt í 5. sæti í 5 þúsund metra hlaupinu. 

mbl.is