Snjóbrettagoðsögn lést í austurrísku ölpunum

Marko Grilc var þekkt stærð í snjóbrettaheiminum og afar vinsæll …
Marko Grilc var þekkt stærð í snjóbrettaheiminum og afar vinsæll á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/@burtonsnowboard

Slóveninn Marko Grilc lést í alvarlegu snjóbrettaslysi í Sölden í austurrísku ölpunum í gær. Þetta tilkynntu hans helstu styrktaraðilar, GoPro og Burton, á samfélagsmiðlum sínum í kvöld.

Grilc, sem var 38 ára gamall og var þekkt stærð í snjóbrettaheiminum, lést eftir að hafa fallið með höfuðið á stein sem var þakinn í snjó en hann var ekki með hjálm þegar slysið átti sér stað.

Hann lést samstundis við fallið en Grilc átti að baki ellefu ára keppnisferil í snjóbrettaíþróttinni. Hann varð heimsmeistari í risastökki í London árið 2010 og þá tók hann fjórum sinnum þátt á X-leikunum frægu í Aspen í Bandaríkjunum en aðeins færustu snjóbrettaiðkendum heims er boðið að taka þátt í því móti. Hann var einnig margfaldur heims- og Evrópubikarmeistari.

Grilc hætti keppni árið 2013 og hefur síðan þá einbeitt sér að myndbandsgerð tengdri snjóbrettaíþróttinni en hann var að vinna að einu slíku þegar hann lést í gær.

„Það er með sorg í hjarta sem við tilkynnum ykkur að vinur okkur og liðsfélagi, Marko Grilc, lést í snjóbrettaslysi í gær,“ sagði meðal annars á Twitter-síðu snjóbrettaframleiðandans Burtons.

Grilc lætur eftir sig eiginkonu, Ninu Grilc, og tvö ung börn en hún á von á þeirra þriðja barni. Fjölskyldan var mjög virk á samfélagsmiðlinum Instagram og birti reglulega myndbönd af sér í fjallinu en börnin þeirra tvö eru mjög efnilegir snjóbrettaiðkendur, þrátt fyrir ungan aldur.

View this post on Instagram

A post shared by Marko Grilc (@grilo)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert