Ég á eiginlega ekki að vera á lífi

„Ég er heppin að hafa heilsu til þess að æfa því hana hafa ekki allir,“ sagði Arna Sigríður Albertsdóttir, hjólreiðakona ársins 2021 og Ólympíufari, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Arna Sigríður, sem er 31 árs gömul, lenti í alvarlegu skíðaslysi í Geilo í Noregi árið 2006 þegar hún fór óvænt út af braut og lenti á tré en við áreksturinn brotnaði hún á þremur hryggjaliðum, ásamt því að brjóta bæði bringu- og rifbein.

Hún hlaut innvortisblæðingar frá milta við áreksturinn sem kallaði á tvær aðgerðir og þá lamaðist hún fyrir neðan brjóstkassa í slysinu en hún er í dag fremsta handahjólreiðakona landsins.

„Ég á eiginlega ekki að vera á lífi miðað við allt sem gerðist og ég er því heppin að vera á lífi í dag,“ sagði Arna Sigríður.

„Ég er mjög heppin með fjölskyldu líka sem hefur alla tíð staðið mjög þétt við bakið á mér og það skiptir öllu máli að vera með gott bakland,“ sagði Arna meðal annars.

Viðtalið við Örnu Sigríði í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert