„Það ert bara þú og stöngin“

Erna Héðinsdóttir var eini íslenski dómarinn á NM í ólympískum …
Erna Héðinsdóttir var eini íslenski dómarinn á NM í ólympískum lyftingum um helgina og fyrst íslenskra kvenna til að öðlast slík réttindi. Undir hæversku yfirborði jakkafatanna leynist kona sem veit sannarlega hvað hún syngur eins og fram kom í líflegu spjalli við þessa norðlensku valkyrju. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þetta var rosalega flott mót, flottir krakkar og fullt af Norðurlandametum,“ segir Erna Héðinsdóttir, sem nýtur þess heiðurs að vera fyrsta íslenska konan sem hlaut alþjóðleg réttindi til að fara með dómsvald á ólympískum lyftingamótum og var meðal dómara á Norðurlandameistaramótinu í greininni sem fram fór í Stavern í Noregi um helgina og Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað um, en íslenskir völsungar og valkyrjur sópuðu þar til sín verðlaunapeningum.

„Þarna var líka góð samstaða milli þjóða, allir vinir og þetta bara rúllaði vel, þarna var vinátta samstaða og skemmtilegheit,“ segir Erna sem hlaut dómararéttindi sín árið 2016 og hefur gegnt dómaraembætti á nokkrum Norðurlandamótum og einu Evrópumeistaramóti. En hvernig stóð á því að Erna, sem á rætur að rekja í Mývatnssveitina, gerðist dómari ólympísks lyftingafólks?

Tímaverðir, stigaverðir og aðrir verðir, án þeirra er ekkert mót …
Tímaverðir, stigaverðir og aðrir verðir, án þeirra er ekkert mót löglega haldið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég er næringarfræðingur að mennt og þegar ég byrjaði að æfa tók ég dómarapróf á Íslandi og ætlaði bara að gera það til að kunna reglurnar,“ svarar Erna. „Svo árið 2016 var þetta mót, Norðurlandameistaramótið, haldið á Íslandi og þá öðlaðist ég réttindi til að dæma á Norðurlanda- og Evrópumótum, en ekki á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum. Svo tók ég category eitt-réttindi í Kaupmannahöfn, en til þess að fá að fara á ólympíumót og þessi stærri mót þarftu að dæma nokkur Evrópumót, þú þarft að sanna þig, sýna að þér sé treystandi sem dómara,“ segir Erna af alvöruþunga og var ekki annað að sjá á Norðurlandameistaramótinu um helgina en hún rækti hlutverk sitt af festu.

Erna kveðst ákaflega ánægð með nýliðun í ólympískum lyftingum á Íslandi, „ekki síst hjá stelpunum sem er virkilega gaman að sjá og þú sérð bara árangurinn núna í dag,“ segir Erna, en eins og Morgunblaðið og mbl.is greina frá rökuðu íslenskir keppendur til sín verðlaunum um helgina sem enginn væri morgundagurinn.

Úlfhildur Unnarsdóttir var óstöðvandi um helgina og var engin stöng …
Úlfhildur Unnarsdóttir var óstöðvandi um helgina og var engin stöng henni ofhlaðin enda stóð Úlfurinn uppi sem Norðurlandameistari í 71 kg flokki á laugardaginn, vel að titlinum komin. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hvaða skýringar kann Erna þá á þessum mikla uppgangi kvenna í sportinu? „Við erum bara miklu meiri töffarar en þið,“ segir Norðlendingurinn og hlær hrossahlátri. „Ég held reyndar líka að strákar hafi meiri fullkomnunaráráttu en stelpur, þær eru meira til í að fara bara að keppa og hafa gaman, en strákarnir vilja kannski ekki keppa nema þeir búist við að enda á verðlaunapalli, en þetta er svo sem bara mín persónulega tilgáta,“ játar Erna.

Hún kveður mótið um helgina nánast einstakt, þar tóku ellefu íslenskir keppendur fern gull- og þrenn silfurverðlaun. „Að eiga svona unga og flotta krakka gerir þetta mót einstakt fyrir okkur Íslendinga,“ segir dómarinn. En telur hún að þessir efnilegu unglingar, sem slógu í gegn í Noregi um helgina, muni halda áfram? Er þetta fólk framtíð Íslands í ólympískum lyftingum?

Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður og Evrópumeistari í ólympískum lyftingum, fylgist …
Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður og Evrópumeistari í ólympískum lyftingum, fylgist spennt með Úlfhildi dóttur sinni úr áhorfendastúkunni ásamt hundinum Konna sem var hinn alþýðlegasti um helgina milli þess sem hann svaf í þar til gerðri tösku. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég hef trú á að þessir krakkar eigi eftir að halda áfram. Þetta er rjóminn okkar, duglegir einbeittir krakkar, við erum að fara að halda mót heima á Íslandi um næstu helgi þar sem 50 keppendur eru skráðir, hvað segir það þér?“ svarar Erna af einurð. En hvað skyldi þá heilla þessi efnilegu ungmenni okkar umfram til dæmis klassískar kraftlyftingar? Hvað dregur byrjendur stálsins að ólympískum lyftingum?

„Þetta er svo tæknilega flókin íþrótt, það er áskorunin, ef þú ert ekki með tæknina er alveg sama hvað þú ert sterkur, þá geturðu ekki neitt í þessu. Auðvitað eru líkar reglur í kraftlyftingum, en þar þarftu meira bara hráan styrk, ólympískar lyftingar ganga kannski meira út á reglur og þar þarftu bara að gera hlutina rétt, en það sem líka gerir þetta svo skemmtilegt er að þú þarft ekkert að vera að keppa á mótum endilega, þú getur bara verið í keppni við sjálfan þig, þinn eigin mælanlegi árangur er svo sýnilegur, þetta ert bara þú og stöngin, það er enginn andstæðingur sem þú þarft að lesa, það ert bara þú,“ segir Erna Héðinsdóttir að lokum, eini íslenski dómarinn á NM í Noregi um helgina og greinilega manneskja sem þekkir fagið út og inn.

Bríet Heiðarsdóttir, ranglega titluð Berit á stigatöflu, var ein Íslendinganna …
Bríet Heiðarsdóttir, ranglega titluð Berit á stigatöflu, var ein Íslendinganna sem gerðu garðinn frægan í Noregi um helgina, fáar þyngdir urðu íslensku ungmennunum ofviða. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert