Ólympíumeistarinn frá 2014 sigraði í Kanada

Matthias Mayer fagnar sigri í Kanada.
Matthias Mayer fagnar sigri í Kanada. AFP

Matthias Mayer, ólympíumeistarinn frá 2014, sigraði í fyrstu brunkeppni vetrarins í heimsbikarnum í alpagreinum.

Fyrsta brunkeppnin var haldin í Lake Louise í Kanada. Til stóð að tvær brunkeppnir yður og ein í risasvigi á þremur dögum. Vegna mikillar snjókomu var einungis ein keppni haldin.

Þar sigraði Austurríkismaðurinn Mayer sem sigraði í greininni á Vetrarólympíuleikunum árið 2014. Á síðustu leikum árið 2018 varð hann ólympíumeistari í risasvigi.

Landi hans Vincent Kriechmayr varð annar og Svisslendingurinn Beat Feuz þriðji.

Matthias Mayer er sonur Helmut Mayer sem fór á verðlaunapall í risasvigi á Vetarólympíuleikunum árið 1988. 

Konurnar voru í Bandaríkjunum og var keppt í svigi í Killington í Vermont. Þar setti veður einnig strik í reikninginn og var aflýst keppni í stórsvigi.

Mikaela Shiffrin frá Bandaríkjunum sigraði í sviginu en Petra Vlhová frá Slóvakíu varð önnur.

Mikaela Shiffrin á ferðinni í sviginu í Bandaríkjunum.
Mikaela Shiffrin á ferðinni í sviginu í Bandaríkjunum. AFP

Þessar virðast vera í algerum sérflokki í sviginu því Vlhová vann fyrstu tvö svigmót heimsbikarsins í vetur og þá varð Shiffrin önnur í báðum tilfellum. Wendy Holdener frá Sviss hafnaði í þriðja sæti.

mbl.is