Vann til bronsverðlauna á Norðurlandamótinu

Eva Margrét Falsdóttir með bronsverðlaunin um hálsinn.
Eva Margrét Falsdóttir með bronsverðlaunin um hálsinn. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Eva Margrét Falsdóttir hafnaði í þriðja sæti í 200m fjórsundi kvenna á Norðurlandamótinu í sundi sem lauk í Våsby í Svíþjóð í dag. 

Eva Margrét kom í mark á tímanum 2:17,44 og bætti sinn besta tíma um tæplega fimmtíu hundraðshluta úr sekúndu. Ada Hakkarainen frá Finnlandi hafnaði í öðru sæti á tímanum 2:17,42 og Karolin Victoria Kotsar frá Eistlandi fór með sigur af hólmi á tímanum 2:16,99.

Þá hafnaði Veigar Hrafn Sigurþórsson í fjórða sæti í 400m fjórsundi karla, Freyja Birkisdóttir varð fjórða í 800m skriðsundi kvenna og Simon Elías Statkevicius hafnaði í fjórða sæti í 50m flugsundi karla.

Kristín Helga Hákonardóttir varð fimmta í 100m skriðsundi kvenna og Fannar Snævar Hauksson hafnaði í 7. sæti í í 50m flugsundi karla. Þá varð stúlknasveit Íslands í 4x100m skriðsundi í 6. sæti og piltasveit Íslands hafnaði í 7. sæti í 4x100m skriðsundi. 

mbl.is