Yrði einstakt að fara með kærustunni til Parísar

„Það er svakalega gefandi að vera í sambandi með manneskju sem hefur fullkominn skilning á því umhverfi sem maður er í,“ sagði Anton Sveinn McKee, margfaldur Íslandsmeistari í sundi og þrefaldur Ólympíufari, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Anton Sveinn, sem er 27 ára gamall, er í sambúð með Guðlaugu Eddu Hannesdóttur en hún hefur verið fremsta þríþrautarkona landsins undanfarin ár.

Guðlaug Edda ætlaði sér að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar en þurfti að hætta við þátttöku á leikunum eftir vegna meiðsla á mjöðm og þurfti hún að gangast undir aðgerð vegna þessa.

„Hún þurfti að gangast undir erfiða aðgerð sem setti í raun allan hennar feril í hættu. Við höfum þurft að takast á við það saman og erum dugleg að hvetja hvort annað áfram,“ sagði Anton.

„Keppnistímabilið hjá henni er mjög langt þar sem hún flakkar mikið á milli heimsálfu og þetta er í raun bara hálf fjarbúð og hálf sambúð hjá okkur,“ sagði Anton.

Viðtalið við Anton Svein í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is