Gamla ljósmyndin: „Steig á svið“ í Crucible-leikhúsinu

Morgunblaðið/Jim Smart

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Kristján Helgason ritaði nýjan kafla í íþróttasöguna á Íslandi þegar hann vann sér inn keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í snóker í mars árið 2000. Með frábærri frammistöðu í undankeppninni komst Kristján í lokakeppnina þar sem þrjátíu og tveir snókerspilarar kepptu í Sheffield í apríl árið 2000. 

Kristján er eini Íslendingurinn sem keppt hefur í lokakeppni HM í snóker og var hann sá fyrsti utan Bretlands og Asíu til að ná inn í 32-manna úrslitin í sögu mótsins. Bretarnir hafa verið geysilega sterkir í íþróttinni og frá árinu 1977 hafði mótið verið haldið í Crucible-leikhúsinu í Sheffield. HM var fyrst haldið árið 1927. 

Meðfylgjandi mynd tók Jim Smart sem lengi myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Myndin birtist fyrst með opnuviðtali sem Skúli Unnar Sveinsson tók við Kristján eftir að hann hafði farið í gegnum undankeppnina og birtist í Morgunblaðinu hinn 28. mars árið 2000. 

HM í Sheffield var geysilega sterkt mót eins og við mátti búast. Fimm heimsmeistarar voru með í mótinu og höfðu þeir unnið mótið þrettán árin á undan: Stephen Hendry, Ken Doherty, John Higgins, John Parrott og Steve Davis.

Kristján fékk geysilega erfiðan andstæðing í 32-manna úrslitunum en hann mætti Stephen Lee sem var í 4. sæti heimslistans og hafði gerst atvinnumaður aðeins 17 ára. Kristján var á hinn bóginn í 90. sæti heimslistans og hafði því komið mörgum á óvart. Eftir tveggja daga keppni hafði Lee betur 10:3. Síðari daginn fékk Kristján tækifæri til að koma sér inn í leikinn og minnka muninn í 7:5. Það tókst ekki og fyrir vikið varð staðan 9:3. 

„Því miður var alltof mikill munur á því hvernig ég spilaði í undankeppninni fyrir þetta mót, og hvernig ég spilaði hér. Það er eins og svart og hvítt. Það er leiðinlegt að hafa ekki spilað eins og ég get. Ég gerði of mikið af mistökum sem Lee refsaði mér fyrir eins og hann á að gera,“ sagði Kristján m.a. í samtali við Víði Sigurðsson í Sheffield sem fylgdist með mótinu fyrir Morgunblaðið.

Kristján hefur unnið ýmis afrek í íþróttinni. Hann varð heimsmeistari unglinga árið 1993 og Evrópumeistari áhugamanna árið 1998. Kristján fór hæst í 66. sæti á heimslista atvinnumanna.

Kristján Helgason hafnaði í 10. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert