Tölvan á skrifstofunni hjá ÍSÍ sagði nei

„Þetta var erfitt ár fyrir íslensku ólympíufarana,“ sagði  Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttamaður á RÚV, í íþróttauppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþáttar Morgunblaðsins.

Ísland átti fjóra keppendur á Ólympíuleikunum í Tókýó sem fram fóru í Japan síðasta sumar; þau Anton Svein McKee, Ásgeir Sigurðsson, Guðna Val Guðnason og Snæfríði Sól Jórunnardóttur.

Kórónuveirufaraldurinn setti svip á undirbúning íslensku keppendanna á leikunum en margir hafa gagnrýnt ÍSÍ, íþrótta- og ólympíusamband Íslands, fyrir aðgerðaleysi á árinu sem er að líða.

„Það kom manni mikið á óvart að sumir af ólympíuförunum hafi ekki getað æft í aðdraganda leikanna þar sem öllu var skellt í lás vegna kórónuveirunnar,“ sagði Hörður Snævar Jónsson.

„Tölvan hjá ÍSÍ sagði bara nei en tilgangurinn með ÍSÍ er fyrst og fremst að liðka fyrir íþróttafólk og sjá til þess að íþróttir séu ekki alltaf í öðru sæti,“ bætti Hörður Snævar við.

Áramótaþátt og íþróttauppgjör Dagmála í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert