Skotinn heimsmeistari í annað sinn

Peter Wright er heimsmeistari í pílukasti.
Peter Wright er heimsmeistari í pílukasti. AFP

Skotinn Peter Wright sigraði Englendinginn Michael Smith 7:5 í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í pílukasti í Alexandra-höllinni í London í kvöld.

Wright varð þar með heimsmeistari í annað sinn á þremur árum en hann vann mótið líka árið 2020, eftir að hafa áður tapað úrslitaleiknum árið 2014.

Smith, sem komst í 5:4, lék einnig til úrslita í annað sinn og fékk sín önnur silfurverðlaun en hann komst einnig í úrslitaleikinn árið 2019.

Með sigri Wrights hafa Skotar hreppt titilinn fjórum sinnum á síðustu átta árum á meðan Englendingar hafa aðeins státað af einum titli á þeim tíma. Fram að því voru Englendingar með nokkra yfirburði í greininni og unnu 17 af fyrstu 20 heimsmeistarmótunum frá 1994 til 2013. Þar af vann reyndar Phil Taylor fjórtán sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert