Djokovic í einangrun í Melbourne

Ástralar af serbneskum uppruna fyrir utan hótelið hjá Novak Djokovic …
Ástralar af serbneskum uppruna fyrir utan hótelið hjá Novak Djokovic þar sem þeir krefjast þess að hann fái að vera í landinu. AFP

Novak Djokovic, fremsti tennismaður heims, situr fastur í einangrun í Melbourne til mánudags, en þá verður skorið úr um hvort hann fái að vera í landinu og taka þátt í Opna ástralska mótinu.

Djokovic er ekki bólusettur gegn kórónuveirunni, sem er skilyrði fyrir því að fá að koma til Ástralíu. Hann tilkynnti í vikunni að hann væri búinn að fá undanþágu og væri á leið til keppni á mótinu.

Þetta fór illa í marga Ástrala og forsætisráðherra landsins tilkynnti að Djokovic yrði vísað umsvifalaust úr landi með næstu flugvél ef hann kæmi án þess að vera með fullgildar forsendur fyrir því að dvelja í landinu.

Þegar Serbinn lenti í Melbourne var honum synjað um landvistarleyfi á þeim forsendum að sú vegabréfsáritun sem hann hefði veitti honum ekki undanþágu til dvalar í landinu.

Hann áfrýjaði þeirri niðurstöðu og sú áfrýjun verður tekin fyrir klukkan 10 á mánudagsmorguninn að staðartíma, eða klukkan 23 á sunnudagskvöld að íslenskum tíma. Djokovic fær að vera í Melbourne fram að þeim tíma en er í einangrun á hóteli og má ekki hreyfa sig þaðan næstu sólarhringana. Opna ástralska mótið hefst mánudaginn 17. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert