Hann gat keppt hérna án vandræða ef hann vildi

Novak Djokovic og Rafael Nadal ræða málin eftir leik á …
Novak Djokovic og Rafael Nadal ræða málin eftir leik á síðasta ári. AFP

Spænski tennisleikarinn Rafael Nadal kveðst hafa samúð með Novak Djokovic og vonar að hann geti keppt á Opna ástralska mótinu en segir að Serbinn hafi vitað nákvæmlega hvernig reglurnar væru í Ástralíu og hefði getað spilað á mótinu án vandræða ef hann hefði viljað.

Djokovic, sem er efstur á heimslistanum og hefur ásamt Nadal verið í fremstu röð í heiminum um árabil, er í einangrun á hóteli í Melbourne þar sem hann er ekki bólusettur við kórónuveirunni og kom til landsins án þess að vera með fullgilda vegabréfsáritun. Það kemur væntanlega í ljós á mánudag hvort hann fái að keppa á mótinu eða verði sendur úr landi.

„Ég held að hann hefði getað keppt hérna í Ástralíu án vandræða ef hann hefði viljað. Hann tók sína ákvörðun, sem allir eiga rétt á að gera, en það getur haft afleiðingar," sagði Nadal við BBC eftir að hafa sigraði á upphitunarmóti í Melbourne í dag.

„Auðvitað er þetta staða sem ég er ekki hrifinn af og ég vorkenni honum að hluta. En um leið vissi hann um reglurnar og aðstæður hér fyrir mörgum mánuðum síðan þannig að þetta er hans ákvörðun.

Ég get ekki haft afdráttarlausar skoðanir á þessu öllu því ég veit ekki um öll smáatriðin. En það sem ég get sagt er að við höfum öll gengið í gegnum miklar áskoranir og margar fjölskyldur hafa gengið í gegnum mikla þjáningar vegna faraldursins undanfarin tvö ár. Það er eðlilegt að þetta mál fari í taugarnar á mörgum hér í Ástralíu því fólkið hérna hefur mátt þola mjög strangar lokanir og takmarkanir og fullt af fólki hefur ekki fengið að koma heim til landsins," sagði Nadal og kvaðst fylgjandi bólusetningum.

„Ef fólkið í heilbrigðisþjónustunni telur að við þurfum að vera bólusett, þá þurfum við að fá bóluefnið. Það er mín skoðun. Ég veiktist af kórónuveirunni. Ég hef verið bólusettur tvisvar. Þar með var ekkert vandamál að fá að spila hérna. Það er það eina sem er á hreinu.

Ég tel að fólk hafi þjáðst nóg og það sé engin ástæða til að fara ekki að reglum. Fullt af fólki hefur látist undanfarin tvö ár og ég tel að bólusetningin sé eina leiðin til að stöðva faraldurinn. Það er mat fagfólksins og ég tel mig ekki umkominn þess að vera á öðru máli," sagði Rafael Nadal sem hefur eins og Djokovic unnið 20 stórmót í tennis á löngum og giftusömum ferli.

mbl.is