Rannsaka hvort Djokovic hafi logið

Novak Djokovic gæti verið í klandri.
Novak Djokovic gæti verið í klandri. AFP

Nýjar vendingar hafa komið upp í máli serbneska tennisleikarans Novaks Djokovic. Nú rannsakar landamæraeftirlit Ástralíu hvort Djokovic hafi logið til um í hvaða löndum hann hafi dvalið á eyðublaði sem hann afhenti eftirlitinu við komuna til Melbourne síðastliðinn fimmtudag.

Eyðublaðið, svokölluð ferðayfirlýsing, var hluti af réttargögnum í gær þegar dómari ákvað að fella úr gildi ákvörðun um að taka ekki vegabréfsáritun hans gilda.

Samkvæmt útfyllingu ferðayfirlýsingarinnar kvaðst Djokovic ekki hafa ferðast neitt annað í 14 daga áður en hann kom til Melbourne.

Myndir náðust hins vegar af honum í Belgrad í Serbíu þann 25. desember og á Marbella á Spáni nokkrum dögum síðar, skömmu fyrir áramót. Þaðan flaug Djokovic til Dubai, þó aðeins til að millilenda, og þaðan flaug hann til Melbourne þar sem hann lenti 6. janúar síðastliðinn.

Miðað við upplýsingarnar sem Djokovic gaf upp í ferðayfirlýsingunni hefði hann þurft að vera í sama landi frá 21. desember og ekki ferðast til Spánar áður en hann ferðaðist til Ástralíu.

Það var ekki ólöglegt fyrir Djokovic að dvelja á Spáni en að ljúga á eyðublaðinu er refsivert samkvæmt lögum í Ástralíu og getur varðað allt að eins árs fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert