Ástralir ánægðir með brottvísun Djokovic

Novak Djokovic fær ekki að keppa á Opna ástralska mótinu …
Novak Djokovic fær ekki að keppa á Opna ástralska mótinu næstu þrjú árin ef brottvísunin stendur. AFP

Meginþorri áströlsku þjóðarinnar virðist vera ánægður með þá ákvörðun ríkisstjórnar landsins að ógilda vegabréfsáritun serbneska tennismannsins Novaks Djokovic, sem þar með fær að óbreyttu ekki að verja titil sinn á Opna ástralska mótinu sem hefst á mánudaginn.

Í skoðanakönnun sem birtist fyrir stundu, í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar í morgun, kom í ljós að um 90 prósent landsmanna virðast sammála þessari ákvörðun.

Fréttastofa Reuters hefur fylgst grannt með málinu og ræddi í dag við nokkra Ástrala á götum úti í Melbourne. Viðmælendur eru sammála um að Djokovic hefði ekki staðið rétt að sínum málum og verðskuldi brottvísunina. Nokkur ummælanna voru sem hér segir:

„Reglur eru reglur, sá sem brýtur þær má eiga von á afleiðingum.“

„Þetta er óheppilegt fyrir Opna mótið, en mótið er stærra en einn maður.“

„Ég tel að ríkisstjórnin hafi brugðist rétt við enda markmiðið að halda okkur heilbrigðum og öruggum.“

„Að leyfa honum að koma hingað óbólusettum og vinna í Victoríu var eins og blautur hanski í andlitið fyrir okkur verkafólkið. Ég er ánægður með að loksins hafi verið tekin sú ákvörðun að losa okkur við hann.“

mbl.is