Biðlar til yfirvalda að vísa sér ekki úr landi

Novak Djokovic.
Novak Djokovic. AFP

Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic hefur farið fram á það við áströlsk dómsmálayfirvöld að koma í veg fyrir fyrirhugaða brottvísun hans úr landi eftir að innflytjendaráðherra Ástralíu ákvað að ógilda vegabréfsáritun hans öðru sinni  í dag.

Áströlsk stjórnvöld hafa fyrirskipað Djokovic að mæta aftur í varðhald áður en honum verður vísað úr landi, þó hann fái leyfi til þess að hitta lögfræðinga sína á skrifstofum þeirra áður en hann gefur sig fram til yfirvalda.

Er Djokovic gert að mæta í varðhald klukkan 21 í kvöld, sem er klukkan 8 að morgni á laugardegi í Ástralíu.

Lögfræðingar Djokovics hafa sagt ákvörðun Alex Hawke innflytjendaráðherra „fullkomlega órökrétta“ en áströlsk yfirvöld gera þá kröfu til allra erlendra ferðamanna sem koma til landsins að þeir séu bólusettir fyrir kórónuveirunni, sem Djokovic er ekki.

Hawke sagði í yf­ir­lýs­ingu að aft­ur­köll­un­in væri á grun­dvelli lýðheilsu og góðra stjórn­sýslu­hátta. 

Lögfræðingar Djokovic gera nú allt sem í valdi þeirra stendur til þess að fá dómara til þess að ógilda úrskurð um ógildingu vegabréfsáritunar Djokovic öðru sinni. Tíminn er naumur þar sem vísa á honum úr landi innan nokkurra daga.

Djo­kovic kom til Ástr­al­íu á fimmtu­dag í síðustu viku en var send­ur í ein­angr­un í Mel­bour­ne þar sem vega­bréfs­árit­un hans var ekki tek­in gild á þeim for­send­um að hann væri ekki með til­skil­in leyfi þar sem hann væri ekki bólu­sett­ur fyr­ir kór­ónu­veirunni.

Dóm­ari í Mel­bour­ne hnekkti þeim úr­sk­urði á mánu­dag og frá þeim tíma hef­ur Djo­kovic æft af kappi í borg­inni til að búa sig und­ir Opna ástr­alska mótið sem hefst á mánu­dag. Djo­kovic hef­ur unnið það síðustu þrjú ár.

Hann á nú hins­ veg­ar yfir höfði sér að mega ekki koma aft­ur til Ástr­al­íu næstu þrjú árin, standi sú ákvörðun yf­ir­valda að vega­bréfs­árit­un hans sé ógild.

mbl.is