Aníta skiptir um félag

Aníta Hinriksdóttir hefur skipt úr ÍR í FH.
Aníta Hinriksdóttir hefur skipt úr ÍR í FH.

Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir gekk nýverið frá félagaskiptum úr ÍR yfir í FH.

Aníta hefur í um áratug verið einn fremsti íþróttamaður landsins, keppt á Ólympíuleikum og heimsmeistara- og Evrópumeistaramótum, verið tilnefnd sem íþróttamaður ársins auk þess að eiga Íslandsmet í 800 og 1.500 metra hlaupi svo eitthvað sé nefnt. Aníta er einungis 25 ára gömul og stefnir ótrauð á frekari afrek.

Aníta er ekki eina afreksmanneskjan sem gengið hefur í raðir FH en auk hennar hefur stökkvari ársins 2021 Irma Gunnarsdóttir bæst í hóp afreksfólks hjá FH en hún hefur keppt á ótal mótum fyrir Íslandshönd og er ríkjandi Íslandsmeistari í langstökki og þrístökki.

Gunnar Eyjólfsson einn öflugasti tugþrautamaður Íslands hefur einnig óskað eftir félagaskiptum til FH en til félagsins hafa einnig gengið reynsluboltinn Íris Anna Skúladóttir einn öflugasti millivega- og langhlaupari landsins til margra ára og hinn bráðefnilegi millivegahlaupari Hlynur Ólason svo einhverjir séu nefndir.

Þá hefur einn hraðasti spretthlaupari heims hin hollenska Naomi Sedney hafið æfingar með FH en hún hefur keppt á nokkrum stórmótum með boðhlaupssveit Hollendinga, nú síðast á Ólympíuleikunum en sveitina skipa auk hennar m.a. hinn fótfráa Dafne Schippers. Sedney stefnir á að keppa á nokkrum mótum innanhús hér á landi í vetur, m.a. Reykjavík International Games í byrjun febrúar.

„Það er okkur sönn ánægja að nokkrir af fremstu frjálsíþróttarmönnum landsins hafi óskað eftir félagaskiptum til FH. Hér er innanhúsaðstaða á heimsmælikvarða og þjálfun eins og hún gerist best. Það sem helst vantar er að geta búið afreksfólki okkar yfir betra fjárhagsumhverfi þannig það geti náð sínu besta fram og staðið jafnfætis afreksfólki á hinum Norðurlöndunum.

Til þess vantar nokkuð í land þótt skref hafi verið tekin í rétta átt. Við bindum miklar vonir við að nýr íþróttamálaráðherra muni leggja aukna áherslu á stuðning við afreksfólk sem mun ef vel er staðið að skila sér í frekari afrekum á Ólympíuleikum og öðrum stórmótum en þar stefnum við í frjálsíþróttardeild FH að eiga fleiri fulltrúa á næstu árum. Þátttaka atvinnulífs skiptir einnig miklu máli en kórónuveirufaraldurinn hefur vissulega sett strik í reikninginn hjá mörgum rekstraraðilum. Við hvetjum þó öll fyrirtæki sem hafa áhuga og ráðrúm til að tengja nafn sitt við okkar frábæra íþróttafólk hvort sem er beint eða í gegnum afrekssjóð deildarinnar,“ er haft eftir Guðmundi Heiðari Guðmundssyni varaformanni frjálsíþróttadeildar FH í yfirlýsingu félagsins. 

mbl.is