Titilvörnin fer vel af stað

Naomi Osaka komst örugglega áfram í nótt.
Naomi Osaka komst örugglega áfram í nótt. AFP

Japanska tenniskonan Naomi Osaka átti ekki í vandræðum með hina kólumbísku Camilu Osorio þegar þær mættust í fyrstu umferð Opna ástralska mótsins í Melbourne í nótt.

Osaka er ríkjandi meistari á mótinu eftir að hafa lagt Bandaríkjakonuna Jennifer Brady að velli í úrslitaleik fyrir tæpu ári síðan. Hún vann mótið einnig árið 2019.

Osaka komst í 5:0 forystu í fyrsta setti áður en Osorio kom til baka. Osaka vann þó settið að lokum 6:3.

Hún var áfram við stjórn í öðru setti og vann það líka 6:3.

Osaka tók sér fjögurra mánaða hlé frá keppni til þess að einbeita sér að andlegri heilsu sinni en sneri aftur í nótt.

Mér fannst ég spila nokkuð vel miðað við aðstæður. Þegar allt kemur til alls er ánægð með að vera hérna og sjá allt fólkið í áhorfendastúkunni.

Ég kann vel við hitann og þegar ég kem hingað eru allir hlýir og bjóða mann velkominn. Ég er viss um að það hafi jákvæð áhrif á mig.

Osaka mætir Bandaríkjakonunni Madison Brengle í annarri umferð Opna ástralska mótsins á miðvikudag. Brengle lagði hina úkraínsku Dayönu Yastremska 6:1, 0:5, 5:0 í fyrstu umferð í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert