Tekst meisturunum að verja titilinn?

Aaron Rodgers hefur leikið frábærlega með Green Bay Packers.
Aaron Rodgers hefur leikið frábærlega með Green Bay Packers. AFP

Átta liða úrslitin í NFL-ruðningsdeildinni hefjast nú um helgina og hefst þá alvaran í keppninni, en um síðustu helgi hófst fyrsta umferðin án fjögurra toppliðanna sem sátu hjá. Þeir leikir voru allir leiðinlegir þar sem heimaliðin rústuðu gestunum í fyrri hálfleiknum. 

Eins og bent var á í þessum pistlum fyrir rúmum mánuði síðan hefur þetta leiktímabil einkennst af því að ekkert lið hefur skarað fram úr í deildakeppninni og hefur það ekki breyst síðan þá. 

Þrír af leikjunum fjórum eru á milli liða sem léku saman í deildakeppninni á leiktímabilinu.

Við hér á Morgunblaðinu munum verða viðstaddir á Ofurskálarleiknum sem fer fram hér á SoFi leikvanginum í Los Angeles 13. febrúar. Heimalið LA Rams stefnir á það að vera annað liðið á tveimur árum sem vinnur titilinn á sínum eigin heimavelli, en það tókst Tampa Bay Buccaneers í fyrra. 

Green Bay sigurstranglegt 

Ef litið er á keppnina í Landsdeildinni (NFC), þá náði Green Bay Packers toppsætinu, sem þýðir að liðið þarf aðeins að vinna tvo heimaleiki í keppninni til að komast á Ofurskálarleikinn.

Um helgina koma San Fransisco 49ers í heimsókn á Lambeau Field-leikvanginn í Green Bay og gæti þessi leikur orðið skemmtilegur því 49ers eru í mikilli sókn – þeir unnu bæði Los Angeles Rams og Dallas Cowboys á útivelli á síðustu tveimur helgum – og gætu þess vegna endurtekið það afrek um helgina í Wisconsin-fylki. 

Þrátt fyrir þennan damp er erfitt að sjá vörn 49ers stöðva sóknarlið Packers í þessum leik. Sókn Packers hefur fengið tveggja vikna hvíld og liðið er að fá þrjá lykilleikmenn úr meiðslum, sem þýðir að Aaron Rodgers, leikstjórnandi Packers, ætti að eiga enn einn stórleikinn. Þá verða gullgrafararnir frá Kaliforníu að eiga við þó nokkuð frost, en það hefur sögulega komið Packers til góða um miðjan vetur.

Tom Brady er enn að með Tampa Bay Buccaneers, 44 …
Tom Brady er enn að með Tampa Bay Buccaneers, 44 ára gamall. AFP

Í hinum leik Landsdeildarinna fer Los Angeles Rams þvert yfir heimsálfuna til Tampa að eiga við Tom Brady og meistara Buccaneers – sem eru ekki tilbúnir að gefa upp titilinn enn. Þessi leikur gæti einnig orðið spennandi, en forráðamenn Rams hafa lagt allt í sölurnar til að vinna titilinn þetta árið á sínum eiginn heimavelli. Þeir veðsettu framtíðina í háskólavalinu - sem er mun mikilvægara fyrir NFL liðin í að endurnýja leikmannahópinn en í öðrum atvinnudeildum hér vestra – með því að skipta valréttum næstu tvö árin fyrir reynda leikmenn í lykilstöðum. Hvort sú ákvörðun muni skila árangri á enn eftir að koma í ljós, en Rams hafa verið á uppleið undanfarnar vikur og gætu gert sóknarliði Buccaneers erfitt fyrir. Þetta verður lykillinn að útkomu leiksins.

Tom Brady, leikstjórnandi Buccaneers, hefur getað reitt sig á leikmennina sem verja hann í sóknarlínunni undanfarin tvö ár, en um síðustu helgi meiddust tveir lykilleikmenn í sóknarlínunni og það gæti gefið varnarliði Rams tækifæri á að hemja Brady, sem nú er 44 ára gamall.

Þrátt fyrir þetta er ávallt erfitt að veðja gegn Tom Brady, sérstaklega í úrslitakeppninni. 

Flestir sérfræðingar eru að spá Tampa Bay sigri í þessum leik, en fyrir undirritaðan er erfitt að spá um útkomuna í þessum leik. Hér getur allt gerst.

Patrick Mahomes er lykilmaður Kansas City Chiefs.
Patrick Mahomes er lykilmaður Kansas City Chiefs. AFP

Tennessee stefnir beint á úrslitaleikinn

Í Ameríkudeildinni ættu Tennesse Titans að rúlla upp Cincinnati Bengals á heimavelli. Risarnir fá ruðningskappann Derrick Henry til leiks að nýju eftir beinbrot í fæti fyrir níu vikum. Hann einsamall gæti hreinlega rutt Titans til sigurs.  

Jafnvel þótt Henry verði ekki í þrumustuði, hefur Tennesse nóg í bakhöndinni í sókninni. Þetta ætti ekki að vera jafn leikur ef Tennesse spilar jafn vel og það hefur gert undanfarnar vikur. 

Loks fá svo Kansas City Chiefs heimsókn frá Buffalo Bills í síðasta leiknum. Miklar vonir voru bundnar við Chiefs í upphafi keppnistímabilsins, enda hafði liðið leikið í tveimur síðustu Ofurskálarleikjunum. Liðið byrjaði hins vegar keppnistímabilið afleitlega og lengi leit út fyrir að þetta yrði „tapað“ ár fyrir Chiefs. Af einhverjum ástæðum náðu Chiefs þó – með Íslandsvininn og leikstjórnandann Patrick Mahomes í fararbroddi – að rétta af skipið og þeir hafa nú unnið níu af síðustu tíu leikjum sínum.

Reyndar vann Buffalo leik liðanna í deildakeppninni í byrjun október, en það var áður en að Kansas City tók við sér. Það er því ólíklegt að Bills muni endurtaka það afrek á sunnudag á Arrowhead leikvanginum í Kansas City – það er heldur betur góður heimavöllur fyrir Chiefs.

Þessi leikur gæti hins vegar orðið barningur, hvorn veginn sem úrslitin verða. Þetta eru tvö hörkulið og það verður ekkert gefið eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert