Kristján náði lágmarki fyrir HM

Kristján Viggó Sigfinnsson er bráðefnilegur hástökkvari.
Kristján Viggó Sigfinnsson er bráðefnilegur hástökkvari. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hástökkvarinn efnilegi Kristján Viggó Sigfinnsson náði í dag lágmarki fyrir heimsmeistaramót U20 ára í frjálsíþróttum.

Kristján stökk yfir 2,15 metra á helgarmóti Reykjavíkurfélaganna í Laugardalshöllinni í dag og það er nákvæmlega lágmarkið fyrir mótið sem fer fram í Cali í Kólumbíu í byrjun ágúst.

Kristján, sem er 18 ára gamall, hefur best stokkið 2,18 metra sem er næstbesti árangur Íslendings í greininni. Íslandsmet Einars Karls Hjartarsonar innanhúss er 2,28 metrar en Íslandsmet hans utanhúss er 2,25 metrar.

mbl.is