Shiffrin hristi af sér vonbrigðin

Mikaela Shiffrin á fullri ferð í Courchevel í dag.
Mikaela Shiffrin á fullri ferð í Courchevel í dag. AFP/Sebastien Bozon

Bandaríska skíðakonan Mikaela Shiffrin hristi í dag af sér vonbrigðin eftir slæmt gengi á Vetrarólympíuleikunum í Peking í síðasta mánaði þegar hún tryggði sér sigur í heildarstigakeppni heimsbikarsins í alpagreinum.

Shiffrin hafnaði í öðru sæti á lokamótinu í risasvigi í Courchevel í Frakklandi í dag og þar með er hún komin með öruggt forskot á helsta keppinautinn, Petru Vlhová frá Slóvakíu, sem hafnaði í sautjánda sæti mótsins í dag.

Þetta er í fjórða sinn sem Shiffrin vinnur heildarstigakeppni heimsbikarsins og hún nálgast nú austurrísku goðsögnina Annemarie Moser-Pröll sem sigraði sex sinnum á sínum tíma.

Shiffrin vann áður þrjú ár í röð, 2017, 2018 og 2019. Árið 2020 hætti hún keppni á miðju tímabili þegar faðir hennar lést og hún glímdi við meiðsli í baki á síðasta tímabili.

mbl.is