María komin á samning hjá atvinnuliði

María Ögn segir að hana hafi dreymt um svona tækifæri …
María Ögn segir að hana hafi dreymt um svona tækifæri og þegar síminn hafi hringt og henni boðist að vera hluti af atvinnuliði var ekki erfitt að segja já. Ljósmynd/Thomas Silva

María Ögn Guðmundsdóttir er ein þeirra kvenna sem hafa verið í fararbroddi í hjólasenunni í um tvo áratugi. Eftir fjölmarga Íslandsmeistaratitla í flestum hjólagreinum sem keppt er í hér á landi er þó komið að líklega hennar stærstu áskorun. Seint í fyrra fékk hún tilboð sem var hreinlega of gott til að hafna því og snemma á þessu ári skrifaði hún undir atvinnusamning við franskt keppnislið sem sérhæfir sig í malarhjólreiðum.

„Þetta er mikill áfangi fyrir mig. Ég var alveg smá feimin fyrst með þetta, en svo er þetta bara svo geggjað,“ segir María þegar hún náði að ræða við Hjólablaðið í vikunni, þar sem hún var við undirbúning í Girona á Spáni, en 1. maí er hennar fyrsta keppni undir merkjum CDC-GT-liðsins.

En hvernig byrjaði þetta allt saman? Eins og þeir sem þekkja til hjólreiða á Íslandi vita hefur María lengi verið viðloðandi flestallt sem viðkemur hjólreiðum hér á landi. Fyrir utan að hafa í fjölmörg ár keppt í fjallahjólreiðum, maraþonfjallahjólreiðum, götuhjólreiðum, cyclocross og nú síðast í malarhjólreiðum hefur María komið að þjálfun, verið fararstjóri í fjölmörgum hjólaferðum erlendis og setið í vinnuhópum sem tengjast hjólreiðum. Bakgrunnur hennar er í fjallahjólreiðum en á síðustu árum hefur hún flutt áhersluna í auknum mæli á malarhjólreiðarnar.

Hitti forsvarsmenn fransks fatafyrirtækis á Íslandi

Fyrir tæplega fjórum árum höguðu svo örlögin því þannig að forsvarsmenn frekar nýlegs fatamerkis í hjólreiðum, Cafe du Cycliste, ákváðu að koma til Íslands til að láta prófa vörur fyrirtækisins. Í leiðinni kynntust þeir Maríu og fleira íslensku hjólreiðafólki og María fór að vinna fyrir merkið við að prófa fatnað, gefa ráð og sem eitt af andlitum fatalínunnar á auglýsingum.

„Þeir vildu svo fá mig út í október á keppnina Roc d'Azur í Frakklandi, en það er stór malarhjólreiðakeppni,“ segir María. Þar endaði hún í öðru sæti og fljótlega í kjölfarið heyrði hún aftur í CDC. Þá hafði fyrirtækið, sem rekur eigið keppnislið, sett upp plan fyrir árið 2022 og spurði hvort María hefði hug á að taka keppnirnar alla leið þetta árið.

Einstakt tækifæri

„Þetta var alveg megadæmi,“ segir María þegar hún lýsir því þegar hún fékk símtalið. Sjálf hafi hún haft talsverðar væntingar til síðasta árs og ætlað að fara út og keppa reglulega, en faraldurinn hafi slegið það aðeins niður. Tilboðið hafi komið henni mikið á óvart en ekki hafi verið erfitt að slá til og hoppa á þetta tækifæri sem hún segir einstakt fyrir sig.

Liðið samanstendur af Maríu, hinni svissnesku Annabel og Danielle frá Bandaríkjunum og munu þær allar keppa í fjórum stórum keppnum yfir sumarið og að öllum líkindum nokkrum til viðbótar. Allur kostnaður sem fellur til við keppnisferðir og uppihald í kringum þær sem og æfingaferðir er greiddur af CDC og öðrum styrktaraðilum. Í raun allur tilfallandi kostnaður. Hún tekur fram að þótt ekki sé um beinharða launaseðla að ræða, og að hún muni vinna að hluta meðfram þessu í ár, þá hafi ekki verið vafi í hennar huga að grípa tækifærið, enda hafi hún sjálf horft til þess að bera kostnaðinn við keppnisferðir og annað tilfallandi áður. „Þetta er ekki til að lifa af þessu eitt og sér,“ segir María.

Í september tekur María Ögn þátt í úrtökumóti fyrir heimsmeistaramótið …
Í september tekur María Ögn þátt í úrtökumóti fyrir heimsmeistaramótið í malarhjólreiðum. Ljósmynd/Thomas Silva

Aðstoðarmenn sem dekra við hópinn

Með þeim í hverri keppni eru tveir aðstoðarmenn sem að sögn Maríu munu dekra við hópinn, sjá um allt skipulag og utanumhald, matarmál o.fl. Þá verður einnig ljósmyndari sem fylgir hópnum og heldur utan um kynningarmál fyrir liðið. Þegar Hjólablaðið ræddi við Maríu var hún aðeins búin að hitta liðsfélaga sína í gegnum Zoom, en þær áttu að hittast morguninn eftir. Við taka svo tveir æfingadagar þar sem hjólað er í 3-4 klst. og hlutar af brautinni skoðaðir.

Malarhjólreiðar eru aðeins öðruvísi en götuhjólreiðar að því leyti að lið njóta helst góðs af sameiginlegum stuðningi frá aðstoðarmönnum sem og liðsfélögum í undirbúningi og öðru slíku. Í keppninni sjálfri er hins vegar mun minna og jafnvel ómögulegt að liðsfélagar njóti góðs t.d. af kjölsogi eða öðru slíku eins og er í götuhjólakeppnunum. „En við munum sjá í þessari keppni hvar við stöndum gagnvart hver annarri,“ segir María og ljóst að hún er spennt að hitta liðsfélagana. Líkir hún liðsheild í malarhjólaliði við fjallahjólalið.

„Stuðningurinn róar hugann og það er séð fyrir öllu fyrir mann; gögnum, ferðalögum skipulagi og gistingu. Það verður passað upp á allt. Svo fara þau að kaupa mat í ísskápinn meðan við erum að æfa okkur,“ segir María hlæjandi.

Stefnan sett á heimsmeistaramótið

Fyrsta keppnin sem liðið tekur þátt í í ár heitir Traka og fer fram 1. maí í Girona á Spáni, en þar munu þær þrjár fara 200 km leið. Næsta keppni verður svo Unbound-keppnin í Kansas í Bandaríkjunum 4. júní, en það er líklega stærsta malarhjólakeppni heims. Þar takast þær á við 200 mílur, eða sem nemur um 330 km. Þriðja keppnin er hér á Íslandi en það er Rift sem er einnig 200 km, en hún fer fram 23. júlí. Hinn 3. september er svo La Montserrato á Ítalíu, en það er 113 km keppni sem jafnframt er úrtökumót fyrir heimsmeistaramótið í malarhjólreiðum sem verður í Toskana á Ítalíu í október. „Stefnan er að komast þangað,“ segir María.

Spurð um hvaða væntingar hún geri til árangurs í keppninni á sunnudaginn og svo öðrum keppnum ársins segir María að hún sé gríðarlega spennt að sjá á sunnudaginn hvar hún standi. „Þetta er mjög sterkt start í kvennaflokknum. Ég er ekki í besta formi tímabilsins og á eftir að bæta mig þegar líður á. Er að bíða með það form,“ segir María og bætir við að stefnan sé að reyna að toppa aðeins síðar á tímabilinu, enda nái keppnistímabilið frá maí fram í október og þá þurfi að skipuleggja vel hvernig æfingaálag og annað sé yfir árið.

María bendir á að hún hafi tekið þátt í þessari sömu keppni árið 2019 og þá endað í fjórða sæti í kvennaflokki. Þá hafi hún jafnframt síðasta haust tekið þátt í keppninni í Frakklandi sem nefnd var hér að framan og annarri í Finnlandi og í báðum endað í öðru sæti. „Það verður því fróðlegt að sjá hvar maður stendur, en í raun hefur maður ekki hugmynd,“ segir hún.

14 upp í 35 klst. á viku

María segir að það sem af er ári hafi hún æft í um 14 klst. á viku, en svo séu stærri vikur inn á milli, meðal annars æfingaferðir sem hún hafi farið á um sex vikna fresti á vegum CDC og þar hafi hún æft 30-35 klst. þær vikur. „Þá er verið að leggja í bankann,“ segir María.

Þessi fyrsta keppni mun að hennar sögn líklega hjálpa til við að slípa til alls konar atriði fyrir tímabilið, en í kjölfarið segir hún að við taki lengri malaræfingar heima á Íslandi með meira álagi, en önnur keppni ársins er jafnframt sú lengsta. „Þá verða þetta svona 15-20 klst á viku plús slatti af gufu og sána,“ segir María, en hita- og rakastigið í Kansas á þessum tíma getur orðið nokkuð hátt og er oft það sem keppendur eiga erfiðast með að glíma við. „Fyrir Unbound verður þetta dálítið tíminn frekar en hraðinn.“ Í júní og júlí segir hún að bætt verði við álagi. „Þá fer maður að keyra hraðann aðeins betur inn í þetta, en vikurnar verða styttri á móti í klst.“

Danielle frá Bandaríkjunum, María Ögn og Annabel frá Sviss munu …
Danielle frá Bandaríkjunum, María Ögn og Annabel frá Sviss munu keppa fyrir franska liðið CDC-GT á þessu ári. Bakgrunnur Danielle og Maríu er í fjallahjólreiðum en Annabel leggur einnig stund á götuhjólreiðar Ljósmynd/Thomas Silva

Hjólaæfingar á Íslandi hafa að miklu leyti færst inn yfir vetrartímann þar sem hjólað er á svokölluðum trainerum eða sérstökum æfingahjólum. María segir að í hennar tilfelli sé þessu öfugt farið og hún hafi hjólað úti í allan vetur. „Það gengur ekki upp að vera inni á trainer fyrir miklar malaræfingar. Það er ekki bara kraftur í pedalana, heldur er það svo mikið álag á allan líkamann, að þola barninginn og vera tæknilega góð á möl.“ Segir hún það að hristast í snjó í allan vetur með tilheyrandi veseni því hafa verið góða æfingu fyrir aukið álag á skrokkinn.

María, sem sjálf er menntuð í sálfræði, segir að malarhjólreiðarnar snúist þó alls ekki bara um kraftinn í löppunum, því hið andlega skipti ekki síður máli þegar hjólaðir eru 7-16 klst í keppni. „Þetta er svo hugrænt og maður þarf að halda haus,“ segir hún.

Tækifæri sem býðst ekki á hverjum degi

Þó að María sé enn öll hin sprækasta og jafnvel í betra formi í dag en oftast áður á sínum ferli verður ekki hjá því litið að það er ekki á hverjum degi sem íþróttafólk fær tækifæri eins og þetta þegar nokkuð er liðið á keppnisaldurinn, en María er sjálf 42 ára. Hún segir enda að þegar hún hafi skrifað undir hafi það verið í fyrsta skiptið sem hún fór eitthvað að vandræðast með aldurinn. „Þegar ég fékk símtalið með tilboðinu var ég fyrst feimin og að velta fyrir mér af hverju þau vildu mig. Þau sögðust vera mjög spennt að fá mig og að ég hentaði vel merkinu sem fyrirmynd auk þess sem mér gekk vel í Frakklandi [fyrrnefnd keppni]. Ég hugsaði alveg „oh my“ og velti fyrir mér hvort það hefði verið hentugra ef ég væri yngri. Fékk alveg smá hnút,“ segir María.

Yfir fertugt að módelast í Frakklandi og á Ítalíu!

Þessi hugsun hafi þó ekki stoppað lengi við og nú segir hún að þetta tækifæri uppfylli alla hennar drauma. „Ég hugsaði að þetta ár væri að fara að snúast um mig. Ég hafði alltaf hugsað að svona nokkuð væri alveg geðveikt tækifæri og mig hafði dagdreymt um það. Svo bara gerist þetta!“ Rifjar hún upp að þegar hún sat heima við eldhúsborðið um síðustu áramót og skrifaði undir samninginn hafi hún fyllst stolti. „Mér fannst þetta svo rosalega skemmtileg framvinda á ferli mínum sem hjólreiðakona. Þetta kemur á svo hárréttum tíma þótt maður sé aðeins í eldra lagi,“ segir hún. „Ég var komin með þörf fyrir að ferðast og svo gerist þetta og það er bara stjanað við og borgað undir mann,“ segir hún og bætir hlæjandi við að það sé ekki leiðinlegt að vera „yfir fertugt að módelast í Frakklandi og á Ítalíu“ yfir árið.

Hún segir að auðvitað muni þetta verkefni taka upp mikinn tíma á árinu, meðal annars fjölmargar vikur erlendis. „Algjörlega, árið snýst dálítið um mann sjálfan, æfingar, hjóla mikið og keppa. Meðan á þessu ævintýri stendur getur maður ekki verið í 100% vinnu eða með fjölskyldunni 100%,“ segir hún. Bendir hún á að í þessari utanferð sem hún er í núna verði hún í þrjár vikur að heiman. Svo komi hún heim í þrjár vikur og fari aftur út til Bandaríkjanna í tvær til þrjár vikur. Einnig verði hún talsvert úti í ágúst, september og október.

María segist rosalega heppin með bakland, en hún er í sambúð með hjólreiðamanninum Hafsteini Ægi Geirssyni og eiga þau tvö börn. „Við tökum þessu þannig að ég er ekki sú eina sem getur hugsað um heimilið,“ segir hún og bætir við að börnin eigi líka rosalega góða ömmu og afa. María er nefnilega ekki sú eina í fjölskyldunni sem mun fara út í ár að keppa, því Hafsteinn tekur þátt í nokkrum slíkum keppnum sem hluti af vinnu sinni. Það verður því heldur betur púsluspil í gangi hjá þessari ævintýrafjölskyldu.

Þessi grein birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út á laug­ar­dag­inn. Þar má finna fjöl­marg­ar grein­ar, ferðasög­ur og um­fjall­an­ir um mál­efni sem tengj­ast hjól­reiðum. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »