KR Íslandsmeistari í 24. skipti

KR er Íslandsmeistari liða í borðtennis í karlaflokki.
KR er Íslandsmeistari liða í borðtennis í karlaflokki. Ljósmynd/Gunnar Skúlason

A-lið KR varð Íslandsmeistari liða í borðtennis með sigri á HK-A í úrslitaleik í Keldudeildinni á sunnudag. Leikið var í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði og lauk leiknum með 3:0-sigri KR.

Úrslitaleikinn léku þeir Ellert Kristján Georgsson, Gestur Gunnarsson og Norbert Bedo. Auk þeirra léku Hlöðver Steini Hlöðversson, Ingólfur Sveinn Ingólfsson og Pétur Gunnarsson með liðinu í vetur.

Lið HK-A skipuðu Bjarni Þorgeir Bjarnason, Björn Gunnarsson og Óskar Agnarsson.

KR varð síðast Íslandsmeistari karla árið 2017 og er þetta í 24. skipti sem liðið fagnar sigri á Íslandsmótinu.  

mbl.is