Snýr Kaepernick aftur eftir sex ára útlegð?

Colin Kaepernick æfir þessa dagana með Las Vegas Raiders.
Colin Kaepernick æfir þessa dagana með Las Vegas Raiders. AFP

Leikstjórnandinn Colin Kaepernick æfir þessa dagana með bandaríska NFL-liðinu Las Vegas Raiders.

Frá þessu greindi Adam Schefter, fjölmiðlamaður hjá ESPN og sérfræðingur í NFL-deildinni, á Twitter-síðu sinni í dag.

Kaepernick, sem er 34 ára gamall, lék síðast með San Francisco 49ers í deildinni frá 2011 til 2016 en hann hefur verið án félags síðan samningur hans rann út í San Francisco árið 2016.

Á lokaári sínu hjá félaginu tók leikstjórnandinn upp á því að krjúpa á hné þegar þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leiki í deildinni.

Með því að krjúpa vildi Kaepernick mótmæla misrétti í garð þeirra sem eru dökkir á hörund í Bandaríkjunum en mótmælin voru harðlega gagnrýnd af stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum.

Síðan Kaepernick hætti að spila í deildinni hefur hann barist fyrir jafnrétti í Bandaríkjunum en á meðan hann var leikmaður San Francisco fór liðið alla leið í Ofurskálaleikinn árið 2012 og í úrslit NFC-deildarinnar ári síðar.

mbl.is