Í besta formi sem ég hef verið í á mínum ferli

Guðni Valur Guðnason á blaðamannafundi fyrir Selfoss Classic í miðbæ …
Guðni Valur Guðnason á blaðamannafundi fyrir Selfoss Classic í miðbæ Selfoss í dag. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Mér líst frábærlega vel á þetta. Það verður yndislegt að keppa á Íslandi á svona hrikalega sterku móti, þetta verður geggjað. Það verður frábært að keppa á móti þessum mönnum,“ segir Íslandsmethafinn í kringlukasti, Guðni Valur Guðnason, en boðsmótið Selfoss Classic fer fram á frjálsíþróttavellinum á Selfossi á morgun og þar er kringlukastskeppnin hápunkturinn.

„Ég er mjög vel staddur í dag, ég myndi segja að ég væri í besta formi sem ég hef verið í á mínum ferli og núna þarf ég bara að sýna það. Ég er búinn að æfa hrikalega og nú þarf ég bara að kasta langt þegar ég er að keppa, það er lykilatriði og þannig séð það eina sem skiptir máli,“ segir Guðni Valur sem fær meðal annars keppni á morgun frá gull- og silfurverðlaunahöfunum af ólympíuleikunum í Tókýó, Svíunum Daniel Ståhl og Simon Pettersen.

„Markmið mitt er að vinna þetta mót á heimavelli og gera mitt besta til þess að senda þá heim með ekkert gull. Þetta verður rosalega skemmtilegt. Ég veit að það eru margir kringlukastarar sem hafa viljað koma til Íslands að keppa en við höfum kannski ekki haft mót til að bjóða þeim á. Vonandi opnar þetta á eitthvað fyrir framtíðina, árlegt mót, það væri frábært. Vonandi verður bara áfram bongóblíða og smá gola úr réttri átt,“ segir Guðni Valur ennfremur.

Vallarmetið á Selfossvelli er 67,64 metrar og það á Vésteinn Hafsteinsson síðan 1989. Guðni Valur reiknar með að metið falli á morgun.

„Ef það verður góður dagur á morgun og allir í stuði þá eru þrír eða fjórir keppendur sem gætu slegið vallarmet Vésteins. Það var kast á heimsmælikvarða á sínum tíma en keppnin hér á morgun verður það góð að vallarmetið er í stórhættu,“ sagði Guðni Valur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert