Virkilega gaman að fá að keppa á Selfossi

Daniel Ståhl á blaðamannafundi fyrir Selfoss Classic í miðbæ Selfoss …
Daniel Ståhl á blaðamannafundi fyrir Selfoss Classic í miðbæ Selfoss í dag. Ljósmynd/sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Þetta verður frábært mót og örugglega skemmtileg keppni. Ég ætla bara að mæta og hafa gaman og kasta langt. Þetta verður frábær keppni fyrir áhorfendurna líka,“ sagði heims- og ólympíumeistarinn Daniel Ståhl í samtali við mbl.is í dag.

Boðsmótið Selfoss Classic verður haldið á Selfossvelli á morgun en mótið er 75 ára afmælismót Frjálsíþróttasambands Íslands og mæta sterkir erlendir keppendur til leiks ásamt fremstu Íslendingunum. Kringlukastskeppnin er hápunktur mótsins.

„Mér líður vel núna. Við getum átt von á löngum köstum á morgun og ég stefni á það. Það er stórt keppnissumar framundan og markmiðið er auðvitað að ná mínum besta árangri bæði á heimsmeistaramótinu og Evrópumeistaramótinu,“ sagði Ståhl ennfremur en hann hefur augastað á vallarmetinu á Selfossvelli, sem er 67,64 metrar, og er í eigu læriföður hans, Vésteins Hafsteinssonar.

„Ég ætla ekki að lofa því að ég bæti metið en stefni að sjálfsögðu á það. Það er virkilega gaman að fá að keppa hér á Selfossi, í heimabæ Vésteins. Aðstæður hér eru mjög góðar og vonandi verður góður vindur á morgun. Þetta er ekki stór völlur en það eru margir svona vellir heima í Svíþjóð og ég kann vel við þetta. Þetta er sjarmerandi völlur og það hefur gengið vel að æfa hérna, við höfum bæði kastað og lyft og það hefur gengið vel. Ég er spenntur fyrir mótinu á morgun,“ sagði heims- og ólympíumeistarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert