Anton fimmti í úrslit á HM - mætir fimm af átta bestu frá ÓL

Anton Sveinn McKee býr sig undir undanúrslitasundið í gær þar …
Anton Sveinn McKee býr sig undir undanúrslitasundið í gær þar sem hann setti glæsilegt Íslandsmet og varð annar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Anton Sveinn McKee verður í dag fimmti Íslendingurinn til að keppa í úrslitasundi á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug þegar synt verður til úrslita í 200 metra bringusundi á HM í Búdapest í dag.

Eðvarð Þór Eðvarðsson varð sá fyrsti árið 1986 þegar hann komst í úrslit í 200 m baksundi á HM í Madríd og hafnaði í áttunda sæti.

Örn Arnarson kom næstur og varð um leið fyrsti og eini Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á mótinu þegar það var haldið í Furuoka í Japan árið 2001. Örn gerði sér lítið fyrir og fékk silfur í 100 metra baksundi og bronsverðlaun í 200 metra baksundi á mótinu.

Hrafnhildur Lúthersdóttir komst í úrslit í 100 metra bringusundi á HM í Kazan í Rússlandi árið 2015 og hafnaði í sjötta sæti.

Eygló Ósk Gústafsdóttir komst í úrslit í 200 metra baksundi á sama móti, HM í Kazan árið 2015, og hafnaði í áttunda sæti.

Anton verður á fimmtu braut í dag, við hliðina á Ólympíumeistaranum og heimsmethafanum Zac Stubblety-Cook frá Ástralíu sem fékk langbesta tímann í undanúrslitum en Anton kom síðan með næstbesta tímann, 2:08,74 mínútur, þar sem hann sló nokkurra klukkutíma gamalt Íslandsmet sitt um  tæpa sekúndu.

Anton Sveinn McKee í lauginni í gær þegar hann setti …
Anton Sveinn McKee í lauginni í gær þegar hann setti Íslandsmet í undanúrslitum í 200 m bringusundi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Brautaskiptingin er þessi í úrslitasundinu sem hefst kl. 17.28 að íslenskum tíma og verður sýnt beint á RÚV:

1 Nic Fink, 28 ára Bandaríkjamaður

2 Matti Mattsson, 28 ára Finni

3 Yu Hanaguruma, 22 ára Japani

4 Zac Stubblety-Cook, 23 ára Ástrali

5 Anton Sveinn McKee, 28 ára Íslendingur

6 Erik Persson, 28 ára Svíi

7 Caspar Corbeau, 21 árs Hollendingur

8 Ryuya Mura, 25 ára Japani

Stubblety-Cook setti heimsmetið á móti í Adelaide í Ástralíu þann 19. maí þegar hann synti á 2:05,95 mínútum og sló met Rússans Antons Chupkovs sem var 2:06,12 mínútur. Hann varð Ólympíumeistari í Tókýó í fyrra.

Mattsson frá Finnlandi fékk bronsverðlaunin á ÓL í Tókýó í fyrra. Bandaríkjamaðurinn Fink varð fjórði, Svíinn Persson sjötti og Japaninn Mura áttundi.

Anton Sveinn mætir því í dag fimm af þeim átta sem kepptu til úrslita á Ólympíuleikunum í fyrra. Þar náði hann sér ekki á strik og hafnaði í 24. sæti á 2:11,64 mínútum. Corbeau varð í 21. sæti en Japaninn Hanaguruma er sá eini í úrslitasundinu í dag sem ekki keppti í greininni á Ólympíuleikunum í Tókýó.

mbl.is