Féll í yfirlið í lauginni og var bjargað af þjálfara sínum

Andrea Fuentes bjargar Anitu Alvarez í gær.
Andrea Fuentes bjargar Anitu Alvarez í gær. AFP/Oli Scarff

Bandaríska sundkonan Anita Alvarez féll í yfirlið skömmu eftir að hafa lokið við rútínu sína í sundfimi á HM í Búdapest í Ungverjalandi í gær. Þar sem Alvarez var í sundlaug þegar leið yfir hana sökk hún á botninn en þjálfari hennar stökk út í laug og bjargaði henni.

Alvarez, sem er 25 ára gömul, andaði ekki þegar Andrea Fuentes þjálfari hennar stökk út í laugina og kom henni upp á sundlaugarbakkann. Þar hóf Alvarez að anda að nýju og var í kjölfarið komið undir læknishendur.

Fuentes syndir á eftir Alvarez.
Fuentes syndir á eftir Alvarez. AFP/Oli Scarff

Í yfirlýsingu frá sundsambandi Bandaríkjanna sagði að Alvarez liði vel og staðfesti Fuentes það:

„Það er í lagi með Anitu. Læknarnir skoðuðu hana og allt er eðlilegt. Hjartsláttur, súrefni, blóðsykur, blóðþrýstingur og svo framvegis.“

Fuentes kvaðst ósátt við seinagang sundvarðanna á svæðinu og því hafi hún sjálf stokkið út í laug til þess að bjarga Alvarez.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Alvarez fellur í yfirlið í sundlaug í kjölfar þess að ljúka við rútínu sína í sundfimi. Það gerðist líka á síðasta ári í Barcelona. Í það skiptið bjargaði Fuentes henni sömuleiðis.

Fuentes búin að koma Alvarez úr kafi.
Fuentes búin að koma Alvarez úr kafi. AFP/Peter Kohalmi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert