Stoltur af sjálfum mér að hafa gefið mér þetta tækifæri

Anton Sveinn McKee í úrslitasundinu í dag þar sem hann …
Anton Sveinn McKee í úrslitasundinu í dag þar sem hann varð sjötti. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Þetta var bara frábært, ég er stoltur af sjálfum mér yfir því að hafa gefið mér tækifæri til að berjast til verðlauna og að öll þau markmið sem voru sett fyrir þetta mót skyldu nást," sagði Anton Sveinn McKee sundmaður við mbl.is eftir að hann varð sjötti í 200 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í Búdapest í dag.

Anton tók mikinn sprett á þriðja hlutanum af fjórum og var fyrstur eftir 150 metra en náði ekki að fylgja því eftir.

Anton Sveinn McKee á síðustu andartökunum fyrir úrslitasundið í dag.
Anton Sveinn McKee á síðustu andartökunum fyrir úrslitasundið í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Auðvitað er erfitt að brenna svona upp á seinustu 50 metrunum en það er eitthvað sem maður tekur með sér frá mótinu til að hafa sem markmið á æfingum til að bæta útfærsluna," sagði Anton.

Aðspurður hvort hann hefði tekið ákveðna áhættu með því að hefja lokasprettinn svona snemma svaraði Anton: „Já, ég vildi byggja sterkt upp á þriðju fimmtíu, ég hefði kannski getað byrjað aðeins mýkra á fyrstu hundrað eins og ég gerði í undanúrslitunum, en yfirhöfuð var þetta bara frábært sund.

Markmiðið fyrir þetta mót var að komast undir 2:10 og að gera það þrisvar, vinna sig upp úr kóvid fyrir eitthvað rúmum mánuði, og taka þetta skref áfram og stimpla sig vel inn, það er ég afar ánægður með," sagði Anton.

Anton Sveinn McKee stingur sér í laugina í Búdapest í …
Anton Sveinn McKee stingur sér í laugina í Búdapest í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hann var í baráttu um verðlaunasætin fram á síðustu metrana og vantaði þá herslumuninn til að fylgja fyrstu mönnum eftir. „Úrslitasundin eru alltaf barátta um sæti og það eru ekki alltaf bestu tímanir sem nást. En ég hef fulla trú á því að ég geti haldið áfram að bæta útfærsluna. Þetta var ekki aðalmótið mitt á þessu tímabili, það kemur eftir fimm vikur, Evrópumeistaramótið og ég hlakka til að halda áfram að byggja upp fram að því og vonandi að taka ennþá meiri framförum."

Mótið í Búdapest var sem sagt í þínum huga áfangi á leiðinni á EM?

„Já, algjörlega, og ég vil líka horfa á frammistöðuna hérna í stærra samhengi til að sjá hvert ég er kominn núna frá því í desember. Þá var ég algjörlega á botninum, hafði keyrt mig gjörsamlega niður í holu eftir erfiða Ólympíuleika og tímabilið í 25 metra laug sem tók við eftir það. Ég var ekki á góðum stað, líkamlega eða andlega, en ég náði að ýta á endurræsingartakkann í desember, tókst að byggja mig upp hægt og örugglega og náði hér þessari draumaniðurstöðu, þessu stóra skrefi sem þetta mót er fyrir mig."

Anton Sveinn McKee á fleygiferð í úrslitasundinu.
Anton Sveinn McKee á fleygiferð í úrslitasundinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Evrópumeistaramótið fer fram í Róm 11. til 17. ágúst og Anton sagði að nú tæki við undirbúningur fyrir það.

„Ég tek næstu tvær til þrjár vikur í að keyra upp æfingamagnið og síðan kem ég aftur niður og fer í fínpússunina og sjálfan keppnisundirbúninginn. Mestur hlutinn af vinnunni er búinn en þarna er tími fyrir lítinn æfingahring.“

Stefnirðu á verðlaunasæti á EM?

„Ég horfi miklu frekar á að halda áfram að bæta við mig keppnisreynslu og bætingu. Ég get ekki strax farið að tala um verðlaun eða eitthvað slíkt. Ég á eftir að fara yfir hvað ég hefði getað gert betur hérna í Búdapest. Framundan er stórt og langt ferli fram að næstu Ólympíuleikum og ég ætla að taka eitt skref í einu og ekki fara fram úr sjálfum mér.

Anton Sveinn McKee kominn að bakkanum eftir 200 metrana í …
Anton Sveinn McKee kominn að bakkanum eftir 200 metrana í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Markmiðið er allavega að eiga tvö góð mót núna á þessu ári, en auðvitað markmiðið um leið að fara í úrslit á EM og fara í gegnum allt ferlið. Því meiri reynsla sem ég fæ, því betur mun mér líða þegar kemur að svona úrslitasundum eins og í dag og markmiðið er að mér líði eins og ég eigi heima þar.

Ég vonast til þess að eftir árið 2022 standi góð reynsla, mér takist að bæta tímana mína enn betur á árinu 2023 og síðan er komið að Ólympíuleikunum 2024. Miðað við stöðuna núna eru þeir langtímasýnin hjá mér," sagði Anton Sveinn McKee.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert