Setti met í brjáluðu veðri

Hlynur Andrésson og Jökull Bjarkason í hlaupinu í dag.
Hlynur Andrésson og Jökull Bjarkason í hlaupinu í dag. mbl.is/Kristvin

Hlynur Andrésson úr ÍR setti mótsmet í 5.000 metra hlaupi karla þrátt fyrir vont veður á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum sem fór fram um helgina. 

Hlynur kom í mark á tímanum 14:13,92 mínútur sem er frábær árangur almennt og sérlega miðað við aðstæður. Besti árangur Hlyns er 13:41,06 mínútur. 

Í öðru sæti var Jökull Bjarkason úr ÍR sem kom í mark á tímanum 16:24,86 mínútur. 

Í þriðja sæti var Valur Elí Valsson úr FH sem kom í mark á tímanum 16:45,89 mínútur.

Munaði 33 sekúndubrotum

Það var mikil spenna í 5.000 metra hlaupi kvenna.

Fyrst í mark kom Íris Anna Skúladóttir úr FH á tímanum 17:43,33 mínútur.

Í öðru sæti var Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir úr UFA sem kom í mark aðeins 33 sekúndubrotum síðar eða 17:43,66 mínútur.

Íris og Sigþóra skiptu hringjunum nákvæmlega jafnt á milli sín nema síðasta hringnum þar sem baráttan átti sér stað. Það gerði það að verkjum að 5000 metra hlaupið varð ein mest spennandi grein mótsins.

Þriðja í mark var Íris Dóra Snorradóttir einnig úr FH. Hún kom í mark á tímanum 18,26 mínútur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert