Kóreubúinn lét Djokovic svitna

Novak Djokovic þakkar áhorfendum stuðninginn eftir sigurinn í fyrstu umferðinni …
Novak Djokovic þakkar áhorfendum stuðninginn eftir sigurinn í fyrstu umferðinni í dag. AFP/Adrian Dennis

Serbinn Novak Djokovic þurfti að hafa fyrir því að komast í gegnum fyrstu umferðina á Wimbledon-mótinu í tennis í London í dag þegar hann mætti Kwon Soon-woo frá Suður-Kóreu.

Djokovic er efstur á styrkleikalista mótsins í einliðaleik karla en Rafael Nadal frá Spáni er annar þannig að ef allt fer eftir bókinni mætast þeir í úrslitaleiknum. Það er hinsvegar langur vegur þangað frá fyrstu umferðinni.

Kwon veitti Djokovic verðuga keppni og Serbinn þurfti fjögur sett til að vinna, 6:3, 3:6, 6:3 og 6:4.

Hann mætir annaðhvort Athanasios Kokkinakis frá Ástralíu eða Kamil Majchrzak frá Póllandi í annarri umferð.

mbl.is