Hrækti í átt að áhorfanda

Nick Kyrgios var ekki sáttur við áhorfanda á Wimbledon-mótinu í …
Nick Kyrgios var ekki sáttur við áhorfanda á Wimbledon-mótinu í tennis í dag. AFP/Adrian Dennis

Ástralski tennisleikarinn Nick Kyrgios viðurkennir að hafa hrækt í áttina að áhorfanda eftir sigur hans á Bretanum Paul Jubb á Wimbledon-mótinu í dag. Þótti honum áhorfandinn sýna sér óvirðingu.

„Ég held að þessi áhorfandi hafi ekki komið á leikinn til þess að styðja neinn, bara til þess að vera með leiðindi og sýna vanvirðingu.

Það er í lagi en ef ég svara fyrir mig þá er það bara eins og það er,“ sagði Kyrgios á blaðamannafundi eftir leik.

Hann var þá spurður hvort hann hafi hrækt í átt áhorfandans og svaraði: „Í átt að einni af þeim manneskjum sem sýndu mér óvirðingu, já. Ég myndi ekki gera þetta við einhvern sem væri mættur til að styðja mig.“

Kyrgios hafði betur gegn Jubb, 3:2, eftir æsilega viðureign.

„Í dag sneri ég mér beint að honum um leið og ég vann leikinn. Ég hef þurft að fást við hatur og neikvæðni um langt skeið þannig að mér fannst ég ekki skulda þessari manneskju neitt,“ bætti hann við.

Kyrgios gæti staðið frammi fyrir því að fá sekt fyrir hegðun sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert