Mjög góður liðsandi fyrir Norðurlandamótið í fimleikum

Thelma Aðalsteinsdóttir Íslandsmeistari kvenna í fjölþraut
Thelma Aðalsteinsdóttir Íslandsmeistari kvenna í fjölþraut Ljósmynd/Auður Sigbergsdóttir

Norðurlandamótið í fimleikum fer fram um helgina í Versölum í Kópavogi, hjá Gerplu. Ísland sendir lið í karla-, kvenna-, stúlkna- og drengjaflokki. Thelma Aðalsteinsdóttir, núverandi Íslandsmeistari segir undirbúninginn ganga vel.

Thelma Aðalsteinsdóttir var bikarmeistari með liði sínu Gerplu og varð Íslandsmeistari í fjölþraut. Hún er í landsliðshóp kvenna ásamt sex öðrum en hópurinn er ásamt Thelmu: Agnes Suto, Dagný‎ Björt Axelsdóttir, Guðrún Edda Min Harðardóttir, Hildur Maja Guðmundsdóttir, Margrét Lea Kristinsdóttir og Nanna Guðmundsdóttir. Þjálfari liðsins er Ferenc Kovats.

Thelma hefur verið að glíma við meiðsli en GK-mótið á þessu ári var fyrsta mótið þar sem hún keppti á öllum áhöldum í tvö ár. „Ég er búin að vera meidd i bakinu i tvö ár, það er ennþá að trufla mig en það er mjög mismunandi eftir dögum.

Bakið mitt er núna miklu betra heldur en fyrir Íslands- og bikarmótið. Ég er búin að vera dugleg að gera þær æfingar sem ég fékk frá sjúkraþjálfara og stoppa þegar bakið segir stopp.“ 

Thelma var Íslandsmeistari í ár í fyrsta skipti í fjölþraut. „Íslandsmeistaratitillinn var frekar mikil hvatning. Helstu markmið mín á Norðurlandamótinu er að standa á öllum áhöldum og svo er það bónus ef ég kemst í úrslit.“ 

Keppt er í bæði einstaklings- og liðakeppni, svo íslensku keppendurnir eru bæði liðsfélagar og keppinautar. „Mórallinn hefur aldrei verið betri! Við erum búnar að æfa saman síðustu tvær vikur svo við erum farnar að þekkjast aðeins betur og það er mjög góður liðsandi,“ segir Thelma.

Í karlalandsliðinu má finna hann Valdimar Matthíasson en það er kærasti Thelmu. „Það er búið að hjálpa mjög mikið að við séum saman í þessum undirbúning.

Við förum förum saman í sund og erum að borða hollt, það hjálpar mikið að vera með einhvern í þessu þá reynir maður ekkert að svindla á mataræðinu. Einnig vitum við bæði að það skiptir miklu máli að fá góðan svefn svo við förum að sofa á skikkanlegum tíma." 

Norðurlandamótið er ekki eina stórmótið í ár en Evrópumótið er haldið í Þýskalandi í ágúst. „Eftir mót fer einbeitingin beint yfir á Evrópumótið og kannski hækka erfiðleikagildið á nokkrum áhöldum."

Thelma hefur farið á þónokkur stórmót bæði úti og hérna heima. „Það er gott að við erum á heimavelli því við erum á okkar áhöldum sem við erum búnar að æfa á síðustu tvær vikur. Við fáum líka vonandi fulla stúku að styðja okkur svo það mun hjálpa helling!" 

Yngri liðin hefja mótið í liða- og einstaklingskeppni  kl 9:30 á morgun og aðalliðin sömuleiðis í liða- og einstaklingskeppni kl 15:00. Mótið er í beinu streymi og hægt er að finna tengil inn á þau á síðu fimleikasambandsins.

mbl.is