Ísland fékk brons og Thelma náði lengst

mbl.is/Óttar Geirsson

Sveitir Íslands höfnuðu í þriðja og fjórða sæti í liðakeppninni á Norðurlandamótinu í fimleikum sem fram fer í Versölum í Kópavogi um helgina en fyrri hluti þess fór fram í dag og sá seinni á morgun.

Norðurlandaþjóðirnar sex eiga þátttakendur á mótinu, Ísland, Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Finnland og Færeyjar.

Kvennalið Íslands fékk bronsverðlaun og fékk 143,462 stig. Karlaliðið hafnaði í fjórða sæti með 228,746 stig.

Thelma Aðalsteinsdóttir náði bestum árangri íslensku keppendanna í fjölþrautinni en hún hafnaði í sjötta sæti.

mbl.is/Óttar Geirsson

Kvennalið Íslands skipuðu þær Agnes Suto, Dagný Björt Axelsdóttir, Guðrún Edda Min Harðardóttir, Hildur Maja Guðmundsdóttir, Margrét Lea Kristinsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir.

Karlalið Íslands skipuðu þeir, Arnþór Daði Jónasson, Atli Snær Valgeirsson, Jón Sigurður Gunnarsson, Jónas Ingi Þórisson, Martin Bjarni Guðmundsson, Valgarð Reinhardsson og Valdimar Matthíasson.

Thelma Aðalsteinsdóttir í keppni á slá á mótinu í Versölum.
Thelma Aðalsteinsdóttir í keppni á slá á mótinu í Versölum. mbl.is/Óttar Geirsson

Á morgun verður keppt til úrslita á einstökum áhöldum, bæði í fullorðinsflokki og unglingaflokki, og hefst mótið kl. 11 en lýkur klukkan 16. Tíu Íslendingar verða þar á meðal keppenda og eru eftirtaldir:

  • Í unglingaflokki karla mun Sigurður Ari Stefánsson keppa á stökki og svifrá.
  • Í unglingaflokki kvenna munu þær Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir og Natalía Dóra S. Rúnarsdóttir keppa á gólfi.
  • Í fullorðinsflokki karla mun Valgarð Reinhardsson keppa á gólfi, hringjum og stökki. Jón Sigurður Gunnarsson mun keppa á hringjum og Martin Bjarni Guðmundsson mun keppa á svifrá.
  • Í fullorðinsflokki kvenna mun Agnes Suto keppa á stökki og gólfi, Guðrún Edda Min Harðardóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir á slá og að lokum Hildur Maja Guðmundsdóttir á gólfi.
mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is