Tvöfalt silfur á Norðurlandamóti

Valgarð á bogahestinum örlagaríka í gær
Valgarð á bogahestinum örlagaríka í gær mbl.is/Óttar Geirsson

Valgarð Reinhardsson hreppti silfrið á tveim áhöldum á Norðurlandamótinu í fimleikum í dag. Annar keppnisdagurinn var í dag og keppti Valgarð í úrslitum á þremur áhöldum, stökki, gólfi og hringjum. 

Í gær var keppt í liðakeppni og fjölþraut en í fjölþraut eru einkunnir á öllum áhöldum lagðar saman. Efstu sex á hverju áhaldi fyrir sig komast í úrslit á því áhaldi. Íslenska karlaliðið lenti í 4. sæti í liðakeppninni og lenti Valgarð í 10. sæti í fjölþraut.

„Ég setti mér mest markmið fyrir fjölþraut í gær en svo ég datt á bogahesti sem var annað áhaldið mitt svo það eyðilagði þann draum en þá var gott að geta komið til baka í dag og ná í tvö silfur.“ 

Í áhaldafimleikum karla er keppt á sex áhöldum svo Valgarð varð að stilla hausinn fyrir restina af áhöldunum í gær „Það var mjög svekkjandi að detta en ég ég reyndi bara að gera mitt besta á hinum áhöldunum og komast í úrslit sem heppnaðist mjög vel.“

Valgarð var fyrstur inn í úrslit á gólfi eftir gærdaginn með 14.000 í einkunn. „Svolítið leiðinlegt að missa gullið frá sér því ég var fyrstur inn í úrslit á gólfi en ég tek silfrinu. Dagurinn í dag var eiginlega bara geggjaður.“

Valgarð var þriðji inn á stökki og hækkaði sig frá 13.550 í 13.699 í úrslitum í dag. Valgarð var 6. inn í úrslit á hringjum og endaði í 5. sæti þar.

Stutt er í næsta stórmót en Evrópumótið er í Þýskalandi í ágúst. „Markmiðið núna er að halda áfram að æfa öll sex áhöldin og sjá til þess að ég detti ekki aftur á bogahesti á næsta móti."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert