Óvæntur úrslitaleikur á Wimbledon

Elena Rybakina og Simona Halep takast í hendur í leikslok.
Elena Rybakina og Simona Halep takast í hendur í leikslok. AFP/Sebastien Bozon

Elena Rybakina frá Kasakstan og Ons Jabeur frá Túnis mætast í úrslitaleiknum í einliðaleik kvenna á Wimbledon-mótinu í tennis eftir óvænta frammistöðu þeirra beggja á mótinu til þessa.

Elena Rybakina, sem flutti frá Rússlandi til Kasakstan fyrir fjórum árum, verður yngsti keppandinn í úrslitaleik mótsins í sjö ár. Hún vann hina sigurstranglegu Simonu Halep frá Rúmeníu og batt endi á langa sigurgöngu hennar að undanförnu en Simona hafði m.a. unnið þrettán sett í röð. Sigur Elenu var sannfærandi, 6:3 og 6:3.

Rybakina er í 23. sæti heimslistans og aðeins þrisvar áður á síðustu fjórum áratugum hefur kona sem er neðar en það á listanum komist í úrslitaleik á Wimbledon. Fyrir mótið í ár hafði hún aldrei komist í undanúrslit á risamóti.

Ons Jabeur verður fyrsta konan frá norðurhluta Afríku til að komast í úrslitaleik á risamóti en hún vann Tatjönu Maria frá Þýskalandi í undanúrslitunum í dag, 6:2, 3;6 og 6:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert