Rokið blæs dagskránni aftur um sex tíma

Slagviðri var í morgun en nú er það helst rokið …
Slagviðri var í morgun en nú er það helst rokið sem er til trafala. Ljósmynd/ Landsmót hestamanna

Allri dagskrá á Landsmóti hestamanna í dag hefur verið seinkað og hefst mótið því klukkan fjögur. 

Mótið átti að hefjast klukkan níu í morgun og standa yfir fram á kvöld og því varð ekki hjá því komist að skera aðeins af dagskránni og færa til, svo allt næðist áður en kvöldvakan hefst. 

„Það átti að vera hópreið í kvöld en við þurftum að blása hana af, svo þéttum við matartíma og B-úrslit í barnaflokki verða í hádegishléinu á morgun í staðinn en veðrið á að vera gott á morgun,“ segir Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Landsmóts. 

Hentar hestinum ekki 

Hann segir vellina í fínu standi og dregið hafi úr úrkomu með deginum, en rokið er enn það mikið að móthöldurum þótti það ekki hæfa Landsmótssýningum. 

„Þetta mikla rok hentar hestinum ekkert sérstaklega, ef við værum í smalamennsku myndi maður láta þetta yfir sig ganga, en síður í svona sýningu.“

Lægðinni fagnað af lágstemmdum

Það gekk yfir nokkuð hressileg lægð í nótt sem Landsmótsgestir fóru ekki varhluta af. Magnús kveðst þó ekki hafa heyrt af neinum óhöppum á tjaldsvæðinu. 

Skemmtidagskráin verður á sínum stað í kvöld en þar munu Gunni Óla, Stefanía Svavars og Íris stíga á svið. Magnús segir að það hafi verið mikil stemmning í gærkvöldi. 

„Mögulega voru einhverjir hressir með það að hafa fengið að liggja lengur í morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert