Keppir ekki meira í sumar

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, spretthlaupari úr ÍR, þurfti að hætta keppni vegna meiðsla þegar hún tók þátt í 200 metra hlaupi kvenna á Nordic-Baltic U23 meistaramótinu í frjálsíþróttum í Malmö í dag. Hefur hún af þeim sökum ákveðið að láta staðar numið það sem eftir er sumars til þess að reyna að jafna sig að fullu.

„Ég er ekkert búin að vera að keppa þetta sumar. Ég reif eitthvað framarlega í lærinu í apríl og er bara búin að vera eitthvað skrítin eftir það.

Ég reyndi að hlaupa í dag en fékk eitthvað aftur í lærið, fékk einhvern krampa þannig að ég ákvað bara að hætta. Ég byrjaði hlaupið en hætti eftir svona 100 metra,“ sagði Guðbjörg Jóna í samtali við mbl.is í dag.

Hún áréttaði að meiðslin frá því í apríl hafi tekið sig upp að nýju í dag.

„Þetta er mjög leiðinlegt af því að þetta minnkar sénsinn minn á að komast á HM og EM en þetta er bara svona.“

Aðspurð um framhaldið sagði Guðbjörg Jóna að lokum:

„Ég er núna búin að ákveða að ég ætla að stoppa í sumar og reyna að ná mér fyrir innitímabilið og næsta ár. Ég vona að þetta verði bara farið þegar ég byrja aftur að reyna að keppa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert