Heimsmeistarinn ætlar að berjast við Fjallið

Tyson Fury eftir að hafa endurheimt heimsmeistaratitil sinn með sigri …
Tyson Fury eftir að hafa endurheimt heimsmeistaratitil sinn með sigri á Deontay Wilder í febrúar. AFP

Tyson Fury, tvöfaldur heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum, er í viðræðum um að snúa aftur í hringinn til að slást við Íslendinginn Hafþór Júlís Björnsson, einnig þekktan sem „Fjallið“.

Hinn 33 ára gamli Fury tilkynnti í apríl síðastliðnum að hann hefði lagt hanskana á hilluna eftir að hann varði WBC þungaviktartitil sinn gegn Dillian Whyte á Wembley-leikvangnum á Englandi.

Hafþór Júlíus Björnsson er kraftlyftingamaður og fyrsti og eini maðurinn í sögunni sem hefur unnið keppnina, Arnold Strongman Classic, og titlana sterkasti maður Evrópu og sterkasti maður heims, á einu og sama árinu.

Hann lék einnig persónuna „Fjallið“ í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.

„Það væri gaman,“ sagði Fury um bardagann við Hafþór í samtali við enska fjölmiðilinn Telegraph. „Það væri frábært að mæta þarna frammi fyrir 70 þúsund áhorfendum og sýna honum hvað hnefaleikar snúast um, fá hann til að klúðra, og rota hann svo.“

„Við erum í viðræðum við teymið hans eins og stendur og þetta er klárlega eitthvað sem ég hef áhuga á.“

Hafþór Júlíus hóf hnefaleikaferil sinn í fyrra og er með tvo sigra í tveimur viðureignum hingað til. Síðast vann hann fyrrum kraflyftingamanninn Eddie Hall í mars á þessu ári.

Hafþór hefur einnig staðfest að viðræður séu komnar af stað um að slást við heimsmeistarann Fury. „Ég veit að það eru einhverjar viðræður í gangi en það hefur ekkert verið staðfest,“ sagði Hafþór í samtali við sjónvarpsstöðina iFL TV á dögunum.

„Ef við fáum staðfestingu vil ég endilega stíga inn í hringinn og slást við hann,“ bætti Hafþór Júlíus við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert