„Dagurinn var geggjaður“

Íslenski hópurinn í Búdapest í vikunni. Frá vinstri: Ragnar Hansen …
Íslenski hópurinn í Búdapest í vikunni. Frá vinstri: Ragnar Hansen aðstoðamaður, María Kristbjörg Lúðvíksdóttir keppandi, Jens Andri Fylkisson yfirþjálfari, Fanney Magnúsdóttir sjúkraþjálfari, Alexandrea Rán Guðnýjardóttir keppandi, Matthildur Óskarsdóttir keppandi og Ragna Kristín Guðbrandsdóttir liðsstjóri. Ljósmynd/Aðsend

„Dagurinn var geggjaður, ég kom hingað bara með það markmið að hafa gaman og njóta þess að vera á pallinum,“ segir Matthildur Óskarsdóttir, einnig þekkt sem Mattí, ein þriggja íslenskra kraftlyftingastúlkna sem leggjast undir stöngina á Evrópumeistaramótinu í bekkpressu sem haldið er í Búdapest í Ungverjalandi þessa dagana.

Heldur betur hafa þær stúlkur sópað að sér gullinu, Matthildur og Alexandrea Rán Guðnýjardóttir, samtals komnar með þrenn gullverðlaun og eitt silfur. Alexandrea lauk keppni í dag í búnaði svokölluðum, sem er bekkpressusloppur, en keppir einnig í hefðbundnum kraftlyftingum, „á kjötinu“ sem stundum er kallað, það er án búnaðar.

Alexandrea horfir stingandi augum á stöngina. Hún snýr heim til …
Alexandrea horfir stingandi augum á stöngina. Hún snýr heim til Íslands með silfur og gull í farteskinu. Ljósmynd/Evrópska kraftlyftingasambandið/EPF

Þriðji Íslendingurinn á mótinu var María Kristín Lúðvíksdóttir sem keppti í +84 kílógramma flokki, Íslandsmeistari og Íslandsmethafi í flokknum. Hún náði því miður ekki að sýna sitt rétta andlit eins og Kraftlyftingasamband Íslands skrifar á síðu sína og við vitnum hér:

„Þetta var frumraun Maríu á stóra sviðinu og því miður tókst henni ekki að sýna sitt rétta andlit. Hún reyndi þrisvar við byrjunarþyngd, 140 kg, en hlaut ekki náð fyrir augum dómaranna og féll úr keppni. Það er svekkjandi að ná ekki markmiðum sínum, en María kemur heim reynslunni ríkari og mun vonandi geta nýtt sér það í framhaldinu,“ skrifar sambandið.

Markmiðið að sigra alla

„Ég byrjaði á að sigra í mínum þyngdarflokki, ungmenna undir 84 kílóum,“ segir Matthildur Óskarsdóttir sem nú keppir á sínu lokaári sem ungmenni enda orðin 22 ára gömul og æfir innan vébanda Kraftlyftingafélags Reykjavíkur. „Ég mætti í vigtun í hádeginu sem gekk bara vel og fékk mér svo að borða. Svo ákvað ég bara að hlaða öllu á stöngina sem nægði mér til að vinna alla þyngdarflokka.

Matthildur og Alexandrea skrýddar gullmynt.
Matthildur og Alexandrea skrýddar gullmynt. Ljósmynd/Aðsend


Ég sagði bara við Rögnu Kristínu [Guðbrandsdóttur], bestu vinkonu mína og aðstoðarmann minn á mótinu, að ég ætlaði bara að gera það sem ég þyrfti til að vinna. Ragna greyið var á fullu að reikna út hvaða þyngd ég þyrfti að taka sem voru 127,5 kíló og það gaf mér flest stig sem ég þurfti til að sigra í ungmennaflokki,“ segir Matthildur og útskýrir hvernig líkamsþyngd og sú þyngd sem hver keppandi lyftir er reiknuð yfir í stig samkvæmt reglum Alþjóðakraftlyftingasambandsins, IPF.

„Markmiðið mitt var bara að sigra alla, nú eru sex vikur í næsta mót og ég er hungruð í meira,“ heldur þessi unga valkyrja áfram en næsta mót er einmitt Norðurlandameistaramótið í Jönköping í Svíþjóð í september.

Mikið um lyfjapróf

„Nú er ég bara búin á þessu móti, þetta var hálftími og þrjár lyftur, ég fer heim með tvö gull og eitt lyfjapróf sem ég var að koma úr,“ segir Matthildur frá.

Talið berst að lyfjum, eru keppendur ekki að mestu hættir að nota stera, fæðubótarefnin orðin mun betri en fyrir 30 árum, spyr blaðamaður og minnist frægrar þyngingarblöndu framleiðanda nokkurs sem einhverjir næringarfræðingar rannsökuðu og kom þá í ljós að blanda sem breyta skyldi lyftingafólki í hreinar ófreskjur innihélt ámóta próteinmagn og brauðsneið með osti. Þetta var þó fyrir margt löngu.

Á verðlaunapöllunum eftir góða frammistöðu í Búdapest.
Á verðlaunapöllunum eftir góða frammistöðu í Búdapest. Ljósmynd/Evrópska kraftlyftingasambandið/EPF

„Ég bara veit það ekki,“ svarar Matthildur af einlægni, „maður vill trúa því að allir séu heiðarlegir og nú er lyfjaprófað mikið, þau eru mjög dugleg að sinna lyfjaprófunum,“ segir hún um lyfjarannsóknarfólk.

Matthildur er Seltirningur, fædd 1999, næst á dagskrá hennar eru ekki stífar lyftingar fyrir næsta mót heldur fimm daga bakpokaferð með björgunarsveitinni hennar, Ársæli. „En svo er NM auðvitað í Jönköping í september og þá keppi ég líka í hnébeygju og réttstöðulyftu auk bekkpressunnar, við erum stór hópur sem förum þangað, líklega 14 frá Íslandi,“ segir Matthildur Óskarsdóttir, gullverðlaunahafi í bekkpressu í Ungverjalandi, og að sjálfsögðu mun mbl.is hafa vökult auga á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð.

Búnaðurinn ákveðin áskorun

„Þetta gekk nú bara ágætlega,“ segir Alexandrea Rán Guðnýjardóttir, næst á viðmælendalistanum, „ég lenti í smá veseni með uppsetninguna á bekknum en tókst að koma 110 kílóum á pall og tryggja mér gullið,“ heldur Alexandrea áfram en hún keppir í -63 kílógramma flokki.

Matthildur fagnar með liðsstjóranum Rögnu Kristínu Guðbrandsdóttur.
Matthildur fagnar með liðsstjóranum Rögnu Kristínu Guðbrandsdóttur. Ljósmynd/Evrópska kraftlyftingasambandið/EPF

„Ég var í þriðja sæti yfir alla á mótinu og jafnaði Íslandsmetið mitt. Þetta snýst bara um að borða nóg, undirbúningurinn fyrir þetta mót gekk mjög vel,“ segir Alexandrea sem æfir hjá kraftlyftingadeild Breiðabliks. Hún keppti í búnaði, eða bekkpressusloppi, í dag. Hvernig stendur á þessu sloppaveseni, snýst bekkpressa ekki bara um að lyfta sinni þyngd „á kjötinu“ eins og kallað er?

Alexandrea hlær dátt. „Þetta er bara ákveðin áskorun, þetta er í rauninni önnur íþrótt,“ segir hún enda á hún 132,5 kíló í bekkpressusloppnum, á æfingu sem sagt, 125 á móti. Hún var þó ekki fullkomlega sátt við dagsformið í dag. „Þetta gekk ekkert allt of vel, náði bara fyrstu lyftunni og endaði með silfur. Tapaði á líkamsþyngd,“ segir Alexandrea sem lyfti 115 kílógrömmum á lokadegi sínum á Evrópumeistaramótinu.

Alexandrea brosir breitt á verðlaunapallinum með verðskuldaðan gullpening um háls.
Alexandrea brosir breitt á verðlaunapallinum með verðskuldaðan gullpening um háls. Ljósmynd/Evrópska kraftlyftingasambandið/EPF

Flott kraftlyftingafólk af Vesturlandi

Fram undan hjá Alexandreu, fyrir utan NM í Jönköping, er heimsmeistaramótið í Suður-Afríku í maí. „Ég er komin með lágmörkin þangað,“ segir Alexandrea sem byrjaði bara í ræktinni eins og það heitir, „svo gerðist þetta bara óvart,“ segir hún og hlær við. Alexandrea starfar á líknardeild Landakotsspítala. „Ég er bara í umönnun,“ segir hún eins og ekkert sé og ljóstrar því upp að hún sé úr Borgarnesi og þekki þar með eina annáluðustu kraftlyftingakonu landsins, dýralækninn hrikalega Kristínu Þórhallsdóttur.

„Við erum báðar af Vesturlandinu eins og fleira flott kraftlyftingafólk,“ segir Alexandrea að lokum frá Ungverjalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert