Víkingur tekur við íþróttamannvirkjum í Safamýri

Knattspyrnufélagið verður nýja hverfisfélagið í Safamýri.
Knattspyrnufélagið verður nýja hverfisfélagið í Safamýri. Hákon Pálsson

Knattspyrnufélagið Víkingur tekur formlega við íþróttamannvirkjum í Safamýri og verður um leið nýja hverfisfélagið í Safamýri. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Knattspyrnufélaginu Víkingi. 

„Við erum afar stolt að fá þetta hlutverk að vera nýja hverfisfélagið í Safamýri. Við lofum að við munum vinna á einlægan máta með hverfisbúum á öllum aldri að skapa mjög öflugt og fjölbreytt íþróttastarf í Safamýri og hverfinu og um leið veita góða þjónustu til allra og vera til staðar,“ er haft eftir Birni Einarssyni formanni Víkings í tilkynningu félagsins.

Næstu vikur fara í tiltekt og viðhald

Í samvinnu Víkings og Reykjavíkurborgar munu mannvirkin í Safamýri fara núna í úttekt, tiltekt og viðhald að innan sem utan. Stefnt er að því að setja nýjar merkingar á mannvirkin á næstu vikum. 

„Við reiknum með að þessi vinna taki 2-3 vikur og stefnum við á að opna endurbætt mannvirki í Safamýri frá og með mánudeginum 22. ágúst næstkomandi eða á sama tíma og nýtt skólaár er að hefjast,“ segir Björn.

Nýir starfsmenn hafa ráðnir í húsið og er nýr rekstrarstjóri Guðbjörg Hjartardóttir. 

„Félagið mun eiga fundi áður en nýtt skólaár hefst með hverfisskólunum og leiksskólunum hverfisins. Þá eru fyrirhugaðir fundir með foreldrafélögum skólanna snemma í september. Nýjar æfingatöflur munu verða kynntar fyrir nýtt skólaár á miðlum félagsins. Einnig erum við að undirbúa hverfishátíð í ágúst og munum við staðfesta og auglýsa hana nánar síðar. Þá ætlum við að hafa upplýsingafund fyrir hverfið í kringum næstu mánaðamót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert