Íhugaði alvarlega að leggja sundhettunni

Anton Sveinn McKee.
Anton Sveinn McKee. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Maður vill alltaf meira en eftir að hafa rýnt betur í úrslitasundið er ég ótrúlega sáttur við árangurinn,“ sagði sundmaðurinn Anton Sveinn Mckee í samtali við Morgunblaðið.

Anton, sem er 28 ára gamall, hafnaði í sjötta sæti í 200 metra bringusundi á Evrópumótinu í 50 metra laug í Róm á Ítalíu um helgina.

Hann kom í mark á tímanum 2:10,96 mínútum en hans besti tími í greininni er 2:08,74 mínútur. Þeim tíma náði Anton á heimsmeistaramótinu í Búdapest í Ungverjalandi í júní á þessu ári þar sem hann hafnaði einnig í 6. sæti í 200 metra bringusundi.

Allt á réttri leið

„Taktíkin mín í Róm snerist fyrst og fremst um það að vera rólegur og synda á mínum hraða. Það er alveg ljóst að ef ég ætla mér að vinna til verðlauna á stórmóti í framtíðinni þarf ég að synda eins og ég gerði í úrslitasundinu um nýliðna helgi.

Það má því segja að þetta sé allt á réttri leið hjá mér eins og staðan er í dag. Það er fyndið að hugsa til þess að í desember á síðasta ári settist ég niður með forsvarsmönnum sundsambandsins þar sem við ræddum meðal annars áframhaldið hjá mér í sundinu.

Ég velti því alvarlega fyrir mér á þessum tímapunkti að leggja sundhettuna á hilluna eftir erfiða tíma en ég get með sanni sagt að ég er virkilega ánægður með þá ákvörðun að halda áfram í íþróttinni. Ég hef bætt mig mikið á þessu ári og tel mig eiga mikið inni þannig að framtíðin er svo sannarlega björt.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert