Valgarð efstur Íslendinganna í München

Valgarð Reinhardsson átti góðan dag.
Valgarð Reinhardsson átti góðan dag. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Valgarð Reinhardsson varð efstur Íslendinganna fimm á EM í áhaldafimleikum í München í Þýskalandi í dag. Valgarð fékk samtals 77,098 stig í fjölþrautinni.

Fjölþrautin, sem Valgarð keppti í, inniheldur sex áhöld. Hann var hæstur Íslendinganna á gólfi, bogahesti, hringjum, stökki og tvíslá. Martin Bjarni Guðmundsson var hinsvegar hæstur Íslendinganna á svifrá.

Valgarð, Martin Bjarni og Jónas Ingi Þórisson kepptu allir í fjölþraut en Atli Snær Valgeirsson keppti á fjórum áhöldum og Jón Sigurður Gunnarsson tveimur. Jónas Ingi fékk 72,865 stig í fjölþrautinni og Martin Bjarni 69,098 stig.

Enn eiga nokkuð margir eftir að klára sínar æfingar í dag og því ekki ljóst í hvaða sæti Íslendingarnir hafna í, eða í hvaða stöðu þeir eru þegar kemur að heimsmeistaramótinu í Liverpool í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert