Guðni ellefti á Evrópumótinu

Guðni Valur Guðnason býr sig undir kast í kvöld.
Guðni Valur Guðnason býr sig undir kast í kvöld. AFP/Andrej Isakovic

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason hafnaði í ellefta sæti á Evrópumótinu í frjálsíþróttum í München í kvöld.

Guðni gerði ógilt í tveimur fyrstu köstunum og kastaði sléttan 61 metra í þriðja og síðasta kastinu. Guðni var með tólfta besta árangurinn í undanriðlinum og hækkaði sig því um eitt sæti í úrslitum.

Íslandsmet Guðna í greininni er 69,35 metrar og var hann því nokkuð frá sínu besta á mótinu, þrátt fyrir að fara í úrslit.

Árangurinn er sá besti hjá Guðna á Evrópumóti til þessa. Hann hafnaði í 22. sæti á EM í Amsterdam árið 2016 og í 16. sæti í Berlín árið 2018.

Litháinn Mykolas Alekna stóð uppi sem sigurvegari með kast upp á 69,78 metra, sem er nýtt mótsmet. Ólympíumeistarinn Kristjan Ceh varð þriðji með 68,28 metra kast og Lawrence Okoye frá Bretlandi varð þriðji með 67,14 metra. 

Simon Pettersson og Daniel Ståhl, sænskir lærisveinar Vésteins Hafsteinssonar, urðu í fjórða og fimmta sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert