Þurfti að taka lán fyrir sjö milljóna króna aðgerð

„Ég tók þá ákvörðun að fara í aðgerð í Bandaríkjunum til læknis sem hefur framkvæmt þessa sömu aðgerð á fremsta íþróttafólki Bandaríkjanna,“ sagði þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Guðlaug Edda, sem er 27 ára gömul, byrjaði að æfa þríþraut árið 2016 en hún hafði sett stefnuna á þátttöku á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021.

Hún þurfti hins vegar að hætta við keppni á leikunum eftir að hafa meiðst alvarlega en ákvað að fara til Bandaríkjanna þar sem hún var ekki tilbúin að hætta í íþróttinni.

„Aðgerðin kostaði mig sjö milljónir en ég fékk mikinn stuðning, bæði í gegnum hópfjármögnun, frá þríþrautarsambandinu, frá fólkinu í kringum mig og svo þurfti ég að taka lán líka,“ sagði Guðlaug Edda.

„Ég reyndi að fara í gegnum Sjúkratryggingar Íslands sem var mikið vesen og ég stend í málaferlum núna til að fá einhvern hluta af þessu greiddan til baka,“ sagði Guðlaug Edda meðal annars.

Viðtalið við Guðlaugu Eddu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert