Gamla ljósmyndin: Fyrstur í úrslit á HM

Morgunblaðið/Þorkell

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Eitt allra mesta íþróttaafrek ársins fram til þess vann Anton Sveinn McKee þegar hann hafnaði í 6. sæti í bringusundi á HM í 50 metra laug í Búdapest í sumar. 

Fáir Íslendingar hafa náð alla leið í úrslit á HM í sundi enda auðveldara um að tala en í að komast þar sem sterkt sundfólk má finna í flestum heimshornum. Fyrsti Íslendingurinn til að afreka það var Eðvarð Þór Eðvarðsson sem komst í úrslit á HM árið 1986. Síðar hafa Örn Arnarson, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Eygló Ósk Gústafsdóttir auk Antons synt í úrslitum á HM. 

Eðvarð hafnaði í 8. sæti í 200 metra baksundi á HM árið 1986 en mótið fór fram í Madríd á Spáni. Eðvarð setti Norðurlandamet í sundinu en Guðjón Guðmundsson var eini sundmaðurinn sem sett hafði Norðurlandamet þar til Eðvarð náði því.

Meðfylgjandi mynd af Eðvarð í sinni sterkustu grein baksundinu tók Þorkell Þorkelsson þegar Eðvarð var upp á sitt besta en Þorkell myndaði lengi fyrir Morgunblaðið. 

Eðvarð Þór keppti fyrir Njarðvík og komst í fremstu röð í heiminum. Hann synti einnig til úrslita á EM og hafnaði í 4. sæti í 200 metra baksundinu á EM 1987 og í 6. sæti í 100 metra baksundi á EM árið 1985. Eðvarð er einnig Ólympíufari og keppti í þremur greinum á leikunum í Seoul í Suður-Kóreu árið 1988. Hann snéri sér að þjálfun þegar keppnisferlinum sleppti. 

Eðvarð Þór Eðvarðsson hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 1986. Hann hafnaði í 2. sæti í kjörinu árið áður og var á meðal tíu efstu í kjörinu á árunum 1983-1987. 

mbl.is